Óundirbúinn fyrirspurnatími á Alþingi í dag hófst á orðaskiptum Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar, um ríkisfjármálin og verðbólgu, sem nú er í hæstu hæðum.
Barið var í borð og kallað þegar Bjarni sagði stjórnarandstöðuna kalla eftir aðhaldi og örvandi aðgerðum samtímis og kallaði það þversögn.
Þorgerður Katrín sótti að fjármálaráðherra og kallaði eftir aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar og nefndi að hann hafi verið í sínu embætti í tíu ár og ætti því að þekkja til málaflokksins.
„Verðbólgan er komin í tveggja stafa tölu, ekki verið meiri í 14 ár. Staða heimila og lítilla fyrirtækja er að sama skapi að þrengjast mjög. Vinnumarkaðurinn er blessunarlega að þokast að niðurstöðu en eftir situr óneitanlega ríkisstjórnin sem hefur verið í dálítilli afneitun fyrir ástandinu og á meðan er ríkissjóður rekinn í blússandi halla og það í góðæri,“ sagði Þorgerður Katrín.
Sagði hún seðlabankastjóra sitja uppi með sitt eina tæki, stýrivaxtatækið, en kallaði eftir aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar. „Þeir sem eiga minnst tapa mestu, að vanda,“ sagði hún.
„Ég vil spyrja hæstvirtan ráðherra, því sé að hann telji að leiðin myndi skýrast við næstu fjármálaáætlun, hvernig ríkisstjórnin ætlar að takast á við verðbólguna. Ég vil spyrja hæstvirtan ráðherra: „Er ekki plan tilbúið? Núna? Hann er búinn að vera í 10 ár í ráðuneytinu og á að þekkja þetta gangverk ágætlega,“ sagði hún og bætti við í lokin:
„Hvaða hagræðingartillögur hefur ríkisstjórnin núna til þess að koma til móts við heimilin og litlu fyrirtækin í landinu vegna þessarar óðaverðbólgu sem ríkir nú og þessara miklu vaxtahækkana sem eru ekki hættar.“
Því næst steig Bjarni upp í pontu og rakti ástæður efnahagslægðarinnar, sem mætti að hluta rekja til kórónuveirufaraldursins. Á þeim tíma hafi ríkisstjórnin haft áhyggjur af efnahagshorfum:
„Við höfum á undanförnum árum gengið í gegnum mjög djúpa efnahagslægð vegna kórónuveirufaraldursins sem var heimsfaraldur. Og á þeim tíma sem við vorum að leggja á ráðin um hvernig við ættum að takast á við þessa hluti,“ sagði hann og bætti við að ríkisstjórnin hafi haft áhyggjur af skuldasöfnun vegna aðstæðnanna.
„Við sjáum það núna, þegar við horfum til baka og berum saman við fjármálaáætlanir sem hafa verið samþykktar í þinginu, að okkur hefur tekist gríðarlega vel til,“ sagði ráðherrann og bætti við að kaupmáttur allra heimila, þ.e.a.s. allra tekjutíunda, hafi farið hækkandi undanfarin tíu ár.
„Staða heimilanna almennt er sterkari en nokkru sinni fyrr. Skuldastaða heimilanna, til dæmis í fjármálakerfinu ber vitni um þetta, sem og eiginfjárstaða heimilanna samkvæmt skattframtölum. Ríkisstjórninni hafi tekist að að stýra hagkerfinu í gegnum þessa djúpu efnahagslægð „með glæsibrag“.
„Þannig að við stöndum ótrúlega sterkt núna þegar við fáum yfir okkur verðbólgukúf,“ sagði Bjarni og hélt áfram:
„Það sem við erum að eiga við í dag er ekki kreppa heldur erum við í miðju góðæri. Við erum í góðæri sem lýsir sér í því að það er of mikil þensla. Og það er rétt að það hefur kallað á vaxtahækkanir vegna verðbólgunnar,“ sagði Bjarni og bætti við að hann deildi áhyggjum af verðbólgunni.
„Menn segja að ríkisfjármálunum hafi ekki verið stýrt nægilega vel. Samt er það nú þannig að skuldir ríkissjóðs eru hundruðum milljarða lægri heldur en við gerðum ráð fyrir fyrir nokkrum árum.“
Tekjur ríkissjóðs stefni í að vera hundruðum milljarða hærri heldur gert hafi verið ráð fyrir, fyrir nokkrum árum síðan.
„Skuldahlutföll ríkissjóðs eru algjörlega til fyrirmyndar og miklu lægri heldur en hjá öðrum þjóðum. Það sem ræður úrslitum núna, um það hvernig úr þessari sterku stöðu spilast, er hvernig við beitum ríkisfjármálunum og peningastefnunni saman með aðilum vinnumarkaðar, sem bera líka sína ábyrgð. laun hafa hækkað gríðarlega mikið undanfarin ár, til þess að draga úr spennunni í hagkerfinu,“ sagði hann í lokin.
Þá steig Þorgerður öðru sinni upp í pontu og sagði það hryggja sig að ráðherra kæmi upp í pontu og segði að ríkissjóður stæði vel.
„Hann getur ekki komið hingað upp eftir alla þessa bið eftir ríkisstjórninni og sagt hvert planið er. Hann getur ekki komið upp og [talið upp aðgerðir] til þess að vinna bug á verðbólgunni,“ sagði hún og bætti við að ráðherrann væri í afneitun.
Þá svaraði Bjarni Þorgerði öðru sinni og vakti athygli á því að staða ríkissjóðs í dag væri mun sterkari og betri heldur en gert hafi verið ráð fyrir, fyrir tveimur árum síðan. Staða heimilanna væri einnig sú sterkasta sem sést hafi.
„En verðbólgan er mikið áhyggjuefni og þegar sagt er að við þurfum að auka aðhald í ríkisfjármálunum, þá segi ég að ég er sammála því. Við þurfum að gæta að vexti útgjaldanna,“ sagði hann og bætti við að það mætti rekja m.a. til þess að stofnanir hafi ekki haldið fjárlög sem sett voru á Alþingi.
„Ég ætla að vara við því þegar þingmenn koma hingað upp og segja aðhald ekki nógu mikið en hvetja eingöngu til þensluhvetjandi aðgerða,“ sagði Bjarni en þá var hrópað og barið í borð inni í þingsal. „Ég ætla að fá að eiga orðið,“ sagði Bjarni og hélt áfram:
„Eins og þær sem ég hef heyrt um að lækka virðisaukaskattinn hressilega á matvæli, eins og þær sem ég hef heyrt um að fella niður tolla. Allar þær aðgerðir sem eru til þess fallnar að draga úr tekjum ríkisins við þessar aðstæður, allir þeir sem gagnrýnt hafa ríkisstjórnina fyrir að láta gjaldstofna sína fylgja verðlagi. þeir eru að biðja um að við förum í örvandi aðgerðir á sama tíma og þeir eru að kalla eftir meira aðhaldi. Þetta er algjör þversögn.“
Þá heyrðist kallað: „Og ríkisstjórnin skilar auðu.“