„Það hefur verið gríðarlega spennandi og gefandi að fá að tala við fólk sem hefur vit á hlutum og fá að vinna úr þekkingu þess og reynslu til fróðleiks fyrir lesendur blaðsins. Ég er sáttur við alla og vona að allir séu sáttir við mig,“ segir Guðni Einarsson blaðamaður sem í gær lét af störfum hjá Morgunblaðinu eftir rúmlega 30 ára starf.
Guðni hóf störf hjá Morgunblaðinu 1. júní 1992. Hann hafði þar á undan starfað sem útgáfustjóri hjá Fíladelfíu forlagi en skipti um gír og lauk námi í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands. „Þegar ég fór að leita mér að vinnu á fréttamiðli voru margir sem mæltu með Morgunblaðinu og sjálfur hafði ég góða reynslu af blaðinu. Ég hafði lesið það frá barnsaldri og byrjaði reyndar sem blaðberi tíu ára gamall í Vestmannaeyjum.“
Guðni rifjar upp að þegar hann kom inn á Morgunblaðið var ráðningarstopp en hann var ráðinn sumarmaður. „Svo þegar ég var búinn að vera þar í þrjá mánuði spurði ég hvort ég væri þá ekki að hætta. Þá fékk ég þau svör að ég skyldi bara vera þangað til mér yrði sagt að hætta. Ég hélt því bara áfram. Nú hef ég hvergi unnið lengur á ævinni og sé ekki eftir því.“
Eins og gengur hefur Guðni fengist við ýmiskonar verkefni á Morgunblaðinu. „Ég byrjaði á sunnudagsblaðinu. Þar teppalagði ég bara, skrifaði langar og miklar greinar,“ segir hann og glottir. „Svo var ég fenginn til að leysa af kollega sem gat ekki gengið kvöld- og helgarvaktir á fréttadeildinni eina viku í mánuði. Þá var Morgunblaðið niðri í bæ þannig að ég fór úr Hafnarstræti 20, gamla Strætóhúsinu þar sem sunnudagsblaðið var til húsa, út í Aðalstræti á kvöldvaktir. Svo flutti ég með blaðinu upp í Kringlu og síðar í Hádegismóa.“
Þegar hann er beðinn að líta til baka segir Guðni að eftirminnilegustu verkeftni sín hafi verið fyrir sunnudagsblaðið. Þar hafi gefist tækifæri til að fara um landið og til útlanda til að hitta viðmælendur. „Ég náði að tala við fólk sem hafði alist upp við sjávarsíðuna og í sveitum landsins. Margt af þessu fólki var sjálfmenntað, vel lesið og vel að sér. Margir náttúruspekingar. Þarna kom það sér vel að hafa alist upp úti á landi og þekkja mun á þorski og ýsu. Maður hafði ákveðið jarðsamband sem kom sér vel.“
Þessar ferðir voru gjarnan með Ragnari Axelssyni ljósmyndara. „Við fórum í margar og fínar ferðir og töluðum við ýmsa snillinga, bæði karla og konur. Ég er enn að hitta fólk sem spyr hvers vegna við höfum ekki haldið þessu áfram.“
Guðni segir að þessi efnisöflun hafi verið á ákveðnum blómatíma í dagblaðaútgáfu hér. Þá voru gefin út fimm dagblöð og samkeppni var mikil, ekki síst þegar kom að helgarblöðunum. Hann segir að viðhorf almennings til fjölmiðla hafi því miður breyst á seinni árum.
„Svo var því lætt inn hjá fólk að fréttir væru ókeypis sem er náttúrlega bull. Það er ekki hægt að jafna saman faglegri ritstjórn og einhverjum samfélagsmiðlum. Fólk sem heldur að það fái áreiðanlegar fréttir þaðan veður í villu og svíma. Ég vona svo sannarlega að sterkar ritstjórnir eins og er á Morgunblaðinu fái tækifæri til að lifa áfram og veita áreiðanlega fréttaþjónustu. Það er gríðarlega mikilvægt.“
Guðni varð sjötugur í síðustu viku og hann kveðst hlakka til þess að takast á við það sem nýr veruleiki hefur að bjóða.
„Nú er þriðja æviskeiðið að hefjast og ég vona bara að ég haldi góðri heilsu. Blessunarlega hef ég verið feitur og fimur og verð það vonandi áfram. Þá get ég gert allt sem mér dettur í hug.“
Hann segir að blaðamennskan hafi verið erfitt starf og ekki hafi gefist mikill tími til að sinna áhugamálum. „Þetta starf getur verið mikil orkusuga og erfitt ef þú sinnir því af vandvirkni. Sérstaklega hjá þeim sem ganga vaktir.“
Guðni segist hafa notið þess að hafa tíma til að lesa bækur að undanförnu. Þá sé hann með ungan hund sem þurfi að ala upp.
„Ég hef alltaf verið með einhver járn í eldinum, einhver verkefni. Ég hef ekki verið iðjulaus einn einasta dag.“