Málið fellt niður á grundvelli neyðarvarnar

Samfélagið á Blönduósi var harmi slegið eftir árásina.
Samfélagið á Blönduósi var harmi slegið eftir árásina. mbl.is/Hákon

Varahéraðssaksóknari hefur staðfest að Blönduósmálið svokallaða hafi verið fellt niður á grundvelli neyðarvarnar.

„Það er okkar niðurstaða hér að þarna hafi sakborningar verið að verjast yfirstandandi árás og þeir hafi ekki farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar og þar af leiðandi sé málið ekki líklegt til sakfellingar og þá er það fellt niður,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari í samtali við mbl.is.

Rúv greindi fyrst frá. 

Kolbrún bætir við að vissulega sé niðurstaða héraðssaksóknara kæranleg. Allar niðurstöður séu kæranlegar innan þrjátíu daga og ef svo færi hefði ríkissaksóknari þrjá mánuði til að taka afstöðu til kærumálsins.

Kolbrún vísar til tólftu greinar hegningarlaga þegar rætt er um neyðarvörn.

Í ágúst í fyrra var skotárás framin á heimili í Blönduósi þar sem tveir létust, þar með talinn árásarmaðurinn.

Þann 10. febrúar lauk rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Fram kom í tilkynningu að rannsóknin hefði leitt í ljós að árásarmaðurinn hefði gengið inn um ólæstar dyr á heimili á Blönduósi, vopnaður afsagaðri haglabyssu og með sjö haglaskot meðferðis.

Húsráðandi hélt síðar á eftir manninum út úr húsinu þar sem kom til orðaskipta sem enduðu á þann veg að húsráðandi var skotinn í kvið og særðist alvarlega. Þá fór árásarmaðurinn aftur inn í húsið og skaut eiginkonu húsráðanda með þeim afleiðingum að hún lést. 

„Sonur húsráðanda kom til aðstoðar og náði byssunni af árásarmanninum. Kom til mikilla átaka á milli sonarins og árásarmannsins en í ljós kom að árásarmaðurinn var með veiðihníf í vasa. Átökin enduðu á þann veg að árásarmaðurinn lét lífið. Réttarkrufning hefur leitt í ljós að dánarorsök var köfnun vegna þrýstings á háls og brjóst.

Staðreynt hefur verið að sonurinn hringdi fyrsta símtal til neyðarlínu og óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna byssumanns inni í húsinu kl. 05.27. Lögregla á bakvakt í umdæminu var ræst út sjö og hálfri mínútu síðar. Lögregla var komin á vettvang kl. 05.53 eða 26 mínútum frá fyrstu aðstoðarbeiðni,“ sagði í tilkynningu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert