Langbylgjumastur Ríkisútvarpsins á Eiðum var fellt skömmu fyrir hádegi í dag. Mastrið var þriðja hæsta mannvirki á landinu. Búið er að leggja niður langbylgjukerfið á svæðinu og til stendur að það verði lagt alfarið niður á Íslandi.
Síðdegis á mánudag söng mastrið sinn svanasöng og var langbylgjuútsending frá Eiðum stöðvuð. Ríkisútvarpið hefur nú komið fyrir öflugu FM-kerfi á Austurlandi sem kemur í staðinn fyrir langbylgjurnar, að því er Rúv greinir frá.
Langbylgjumastrið, sem reist var á árunum 1996-1998, var þriðja hæsta mannvirki Íslands og stóð í um 218 metra hæð.
Einu mannvirkin sem teygja sig hærra til himins eru annars vegar annar af tveimur útvarpssendum Bandaríkjamanna í Grindavík (243 m) og hins vegar langbylgjumastur á Gufuskálum á Snæfellsnesi (412 m).
Mastrið sem stendur enn á Snæfellsnesi er enn nýtt til síns brúks en til stendur að hætta sendingum þaðan á næsta ári, þar sem viðhald á langbylgjumöstrum er of kostnaðarsamt og fá tæki taka við útsendingum.