Nágranni varð eldsins var

Tildrög brunans eru ekki ljós.
Tildrög brunans eru ekki ljós. Ljósmynd/Aðsend

Rannsókn á tildrögum eldsvoða er varð í tveggja hæða húsi á Tálknafirði stendur enn yfir að sögn Hlyns Snorrasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Nágranni, sem varð eldsins var, hafði samband við lögreglu klukkan átta í morgun.

„Eldurinn var einangraður og tókst slökkviliði vel að ráða niðurlögum hans áður en hann breiddist hratt út,“ segir Hlynur.

Allstór hópur slökkviliðsmanna Slökkviliðsins í Vesturbyggð, sem var mannað liðsmönnum frá Tálknafirði, Bíldudal og Patreksfirði, fór á vettvang og tók um eina klukkustund að slökkva eldinn. 

Húsráðendur ekki í nágrenninu

Húsráðendur voru ekki í nágrenninu þegar eldurinn kom upp og var enginn staddur í húsinu svo vitað sé, að undanskildum heimiliskettinum. Bundnar eru vonir við að hann hafi náð að forða sér út um glugga eins og mbl.is greindi frá í morgun. Tjónið er mikið að sögn Hlyns.

Stutt er síðan eldur kviknaði á starfssvæði laxeldisfyrirtækisins Arctic Fish í Tálknafirði. Um það segir Hlynur: „Þessir tveir brunar eru ekki taldir tengjast neitt. Ekki nema það að þetta er í sama firðinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert