Ný miðlunartillaga og vinnustöðvun frestað

Ástráður Haraldsson.
Ástráður Haraldsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ástráður Har­alds­son, sett­ur rík­is­sátta­semj­ari, hefur sett fram nýja miðlun­ar­til­lögu í deilu Efl­ing­ar og SA. Þetta kom fram á blaðamannafundi hans núna klukkan 10. Samhliða þessu verður öllum vinnustöðvunum af hálfu bæði Eflingar og SA frestað þangað til niðurstaða atkvæðagreiðslunnar liggur fyrir.

Ástráður sagði á fundinum að þessi miðlunartillaga kæmi í stað fyrri miðlunartillögu sem áður hafði verið lögð fram. Þá sagðist hann hafa náð samkomulagi við fulltrúa bæði Eflingar og SA um að þessi nýja tillaga gengi til afgreiðslu hjá báðum félögum. Því ætti ekki sama vandamál að koma upp og varð við fyrri miðlunartillöguna þegar Efling neitaði að afhenda kjörskrá sína.

Afturvirkni og í grunnatriðum eins og SGS-samningurinn

Samkvæmt miðlunartillögunni er gert ráð fyrir afturvirkni samninga til 1. nóvember, líkt og var í svokölluðum SGS-samningum. Er það þrátt fyrir fyrri orð SA um að ekki kæmi til afturvirkni ef til verkfalla kæmi.

Ástráður sagði jafnframt að tillagan væri í öllum verulegum atriðum eins og embættið hefði áður lagt fram, þ.e. þar væri sett fram tillaga um 6,75% launahækkun og sama kjaraumhverfi og var í SGS-samningnum. Eitt atriði væri öðruvísi og það væri breyting á starfsheiti fyrir almennt starfsfólk í gistihúsum og röðun launaflokka eftir því. Annars væri um sama samkomulag að ræða og áður hefði verið sett fram.

Atkvæðagreiðslan hefst á föstudaginn

Atkvæðagreiðsla um miðlunartillöguna fer fram á vef ríkissáttasemjara og hefst á hádegi á föstudaginn. Mun henni ljúka næsta miðvikudag klukkan 10:00 og mun niðurstaðan liggja fyrir fljótlega eftir það. Sagði Ástráður að stutt kynning á efni miðlunartilögunnar verði einnig að finna á vef embættisins.

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í Karphúsinu í morgun.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í Karphúsinu í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samhliða framsetningu miðlunartillögunnar hafa SA og Efling fallist á að fresta frá hádegi yfirstandandi og boðuðum vinnustöðvunum þangað til niðurstaða atkvæðagreiðslunnar liggur fyrir.

Snerist um samskipti deiluaðila í kjaraumhverfinu

Ástráður sagði að deilan hefði verið erfið og reynt á þolgæði samningsaðila með ýmsum hætti. Sagðist hann vilja þakka þeim sérstaklega fyrir að hafa getað komið sér saman um þessa leið, en tók fram að samkomulagið sem nú hefði náðst og hefði verið í vinnslu síðustu daga hefði ekki beint tengst efni miðlunartillögunnar, heldur tengst samskiptum deiluaðila í þessu kjaraumhverfi. Sagði hann að tekist hefði að ljúka þeirri deilu í gær.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert