Skoða að færa biðstöð nær Leifsstöð

Verkefni hópsins er að greina leiðir til að bæta almenningssamgöngur …
Verkefni hópsins er að greina leiðir til að bæta almenningssamgöngur á þessari leið með umhverfisvænum hætti. Samsett mynd

Vinna er hafin við að kortleggja hvernig almenningssamgöngur verði bættar milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Færsla biðstöðvar almenningsvagna nær flugstöðvarbyggingunni verður skoðuð.

Hvorki lög né samningar við Isavia standa í vegi fyrir að gerðar séu úrbætur á þjónustu almenningssamgangnaÞá verður ekki séð að samningar Isavia við rekstraraðila hópbifreiða geti staðið í vegi fyrir slíkum úrbótum.

Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra við fyrirspurn Hildar Sverrisdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um almenningssamgöngur til Keflavíkurflugvallar. 

Starfshópur um bættar samgöngur

Starfshópur um bættar og umhverfisvænar almenningssamgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins er að hefja störf en verkefni hans er að greina leiðir til að bæta almenningssamgöngur á þessari leið með umhverfisvænum hætti og leggja fram tillögur til úrbóta. 

Í svari ráðherra segir að horft verði til leiðakerfis, þjónustustigs, verðskrár, staðsetningar og umgjörðar biðstöðva og kolefnisfótspors.

Starfshópurinn mun setja fram tillögu að aðgerðaáætlun um úrbætur á næstu þremur árum en jafnframt verður horft til þess að ná umbótum á þjónustunni næsta sumar. Niðurstöður og tillögur fyrir næsta sumar eiga að liggja fyrir í apríl en tillögur til lengri tíma munu liggja fyrir í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert