Karlmaður á sjötugsaldri er sakaður um að hafa setið fyrir hópi drengja, dregið einn þeirra inn á heimili sitt og læst hann inni eftir að hópurinn gerði hjá honum dyraat.
Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum að því er Rúv greinir frá.
Maðurinn er sakaður um að hafa setið fyrir drengjunum eftir dyraatið, ráðist að þeim síðar um kvöldið, tekið einn drengjanna og læst hann inni. Í frétt Rúv segir að maðurinn hafi haldið drengnum föngnum í tæplega tíu mínútur og neitað að hleypa honum út, að sögn móður drengsins.
Foreldri eins drengjanna hafi þurft að brjóta rúðu á útidyrahurð mannsins til að komast inn og ná drengnum út af heimilinu.
Móðirin segir drenginn hafa hlotið líkamslega áverka við árásina og hún hafi gengið honum nærri andlega.