„Við erum auðvitað fyrst og fremst fegin því að þessi tillaga liggur fyrir til atkvæðagreiðslu,“ segir Hildur Ómarsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Berjaya-hótelanna Iceland Hotel Collection.
„Við vonum að málinu lykti í kjölfarið með jákvæðum hætti svo allir geti vel við unað og að samningar náist,“ segir Hildur.
Ný miðlunartillaga ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins var kynnt í morgun en öllum yfirstandandi verkfallsaðgerðum Eflingar var í kjölfarið frestað frá klukkan 12 á hádegi í dag.
Hildur segist vera bjartsýn á jákvæða niðurstöðu úr atkvæðagreiðslunni sem er framundan.
„Ég er bjartsýn að eðlisfari og ætla sannarlega að vera bjartsýn í þessu máli.“
Aðspurð um það hvort hennar tilfinning sé að þeirra fólk muni fylkja sér að baki tillögunni segir hún að fyrst og fremst sé verið að kalla fólk aftur til vinnu og að taka á móti því.
„Svo það hefur nú ekki mikið verið rætt en við ætlum að tryggja mjög gott aðgengi að upplýsingum um miðlunartillöguna fyrir allt okkar fólk.“
Hildur segir að verið sé að skoða það tjón sem hótelkeðjan hefur orðið fyrir vegna verkfallsaðgerða Eflingar.
„Það er gríðarlega mikið bæði í gisti- og veitingatekjum sem og afbókunum sem enn sér ekki fyrir endann á. Við vorum auðvitað búin að loka fyrir allar bókanir 8. febrúar þegar verkfallsboðun barst og erum að opna aftur fyrir bókanir núna en það tekur tíma að vinna upp það affall viðskipta sem liggur fyrir.“
Margir þeirra sem hafa afbókað eru búnir að gera aðrar ráðstafanir að sögn Hildar en hún segir að sem betur fer eigi Berjaya-hótelin mjög góð og farsæl viðskiptasambönd við alla stærstu söluaðila gistingar á Íslandi.
„Þannig að við höldum áfram að reyna að vinna þetta upp en tapið liggur fyrir. Þetta eru liðnar nætur sem ekki hafa verið seldar og um er að ræða stóran hluta febrúarmánaðar og alveg fram í mars.“
Hún segir að það muni taka tíma að fylla hótelin á ný.
„Bókunarglugginn er einn til þrír mánuðir. Við fyllum ekki komandi helgi af því sem búið er að hreinsa út úr okkar bókum.“
Aðspurð um það hvernig hafi gengið að halda úti þó einhverri starfsemi sagði Hildur að stjórnendateymið hefði þurft að bera það á sínum herðum.
„Við eigum ótrúlega öflugt teymi stjórnenda þó lítið sé en þetta var gríðarlega erfitt verkefni en nú vonum við svo sannarlega að deilan leysist með þessum hætti öllum til handa.
Það sem skiptir máli er að friður skapist til að halda úti okkar starfsemi. Horfur eru góðar fyrir komandi tímabil í ferðaþjónustu á Íslandi.
Það skiptir máli að öll félög í rekstri fái jöfn tækifæri til að hámarka sinn rekstur og tryggja þannig auknar gjaldeyristekjur inn í landið sem svo sannarlega er þörf á núna,“ segir Hildur Ómarsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Berjaya-hótelanna Iceland Hotel Collection.