Vöntun á skógarplöntum ræður því að Skógræktin hefur að nýju hafið framleiðslu á bakkaplöntum í eigin gróðrarstöð.
„Sérstaklega vantar ösp, en af henni átti að gróðursetja alls um hálfa milljón plantna í ár. Gróðrarstöðvar í einkarekstri framleiða í ár kannski 150-200 þúsund plöntur og því er eftir stórt gat sem varð að fylla,“ segir Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri hjá Skógræktinni, í samtali við Morgunblaðið.
Jörðin Tumastaðir í Fljótshlíð er í eigu Skógræktarinnar, hvar eru bæði víðfeðmur ræktaður skógur og aðstaða til plönturæktunar, til dæmis gróðurhús. Nærri aldamótum var Skógræktinni gert að hætta eigin plöntuframleiðslu vegna samkeppnissjónarmiða, til þess að sjálfstætt starfandi gróðrarstöðvar hefðu svigrúm til vaxtar og viðgangs.
Nú bregður hins vegar svo við að eftirspurn eftir plöntum sem gróðursetja skal er meiri en framboðið – og gildir það um flestar trjátegundir sem gróðursettar eru og ræktaðar á Íslandi.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag