„Tillagan sem samþykkt var miðar að því að taka upp viðræður við Þjóðskjalasafnið um framtíðarfyrirkomulag skjalamála,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við mbl.is um Borgarskjalasafn sem lagt verður niður, en borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt tillögu hans þar að lútandi. Hálfur mánuður er síðan tillagan var kynnt ráðinu á fundi þess.
Dagur kveður Þjóðskjalasafn, Borgarskjalasafn og fleiri söfn standa frammi fyrir miklum áskorunum og sé þörfin brýn fyrir að vistun gagna og skjala verði í meira mæli á stafrænu formi en nú er.
„Í ekki stærra landi getur verið mjög skynsamlegt að gera það á samræmdan hátt, á einum stað til að tryggja aðgengi almennings, stjórnsýslunnar og fræðimanna og öryggi í skjalavistun,“ segir borgarstjóri og bætir því við að litlar líkur séu á því að notendur safnanna eða aðrir verði varir við miklar breytingar í bráð, sviðsmyndin sem tillaga hans byggir á geri ráð fyrir að fjögur ár hið minnsta líði þar til breytingarnar verði.
„Það endurspeglar að þetta er aðeins eitt skref af mörgum og að vandað verður til alls málsins í hverju skrefi,“ segir Dagur B. Eggertsson að lokum.
Á heimasíðu Reykjavíkurborgar er nánar greint frá þeim breytingum sem fram undan eru í safnaflóru borgarinnar. Segir þar frá því að á síðasta ári hafi verið lögð fram tillaga að stefnumótun fyrir framtíðartilhögun starfsemi Borgarskjalasafns og þar lagt til að skoðað yrði nánara samstarf eða frekari þjónustukaup frá Þjóðskjalasafni Íslands.
Hafi stýrihópur skilað af sér valkostagreiningu sem unnin var í samstarfi við KPMG og þar tilgreindir ýmsir valkostir. Samkvæmt skýrslu stýrihópsins hafi áætlaður kostnaður borgarinnar við að koma starfsemi Borgarskjalasafns í rétt horf 7,9 milljarðar króna næstu sjö árin
„Áætlaður kostnaður af sameiginlegri vegferð með Þjóðskjalasafni er 7,5 milljarðar en áætlaður kostnaður við flutning verkefna til Þjóðskjalasafns er 1,5 milljarðar. Borgarráð samþykkti tillögu borgarstjóra um að valin yrði hagkvæmasta leiðin og er því um sex milljarða króna sparnað að ræða,“ segir í pistlinum.
Er núverandi staða safnsins ekki sögð góð, það hafi ekki burði til að sinna breyttum verkefnum svo vel sé auk þess sem gert sé ráð fyrir auknum rekstrarkostnaði næstu árin, meðal annars til að mæta kröfum um nútímaskjalavörslu auk þess sem þörf sé á fjárfestingum í sérhæfðum innviðum til að koma starfseminni í stafrænt horf.
„Áskoranir í starfsemi Borgarskjalasafns og Þjóðskjalasafns á næstu árum eru að miklu leyti þær sömu. Því er talin skynsamleg nýting fjármuna að uppbygging innviða í málaflokknum sé á hendi einnar stofnunar sem lögum samkvæmt þjónar þegar landinu öllu. Til lengri tíma litið er slík tilhögun líkleg til að skila lægri kostnaði en einnig betur sérhæfðum húsakosti, öflugum upplýsingatækniinnviðum, betri nýtingu sérþekkingar og stórbættri þjónustu við almenning, fyrirtæki og stofnanir,“ segir enn fremur.
Því standi til að færa verkefni Borgarskjalasafns með hagkvæmni til framtíðar að leiðarljósi. Engar lagalegar hindranir séu fyrir því að færa verkefni safnsins alfarið til Þjóðskjalasafns eða fela Borgarsögusafni eða öðrum menningarstofnunum að sjá um fræðslu um og miðlun á safnkosti.
„Þjónustu- og nýsköpunarsviði borgarinnar verður falið að fylgja ákvörðuninni eftir, meðal annars með því að ganga frá samkomulagi um útfærslu og framkvæmd flutninganna,“ segir þar að lokum.