Hæstiréttur hefur ómerkt dóm Landsréttar í skaðabótamáli þrotabús Sameinaðs Sílikons gegn Ernst & Young og Rögnvaldi Dofra Péturssyni, sem féll í apríl í fyrra, á þeim grundvelli að einn dómari málsins, Jóhannes Sigurðsson, hefði verið vanhæfur til að fara með málið og dæma í því.
Þrotabúið höfðaði málið til greiðslu skaðabóta vegna ætlaðrar saknæmrar háttsemi endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young við gerð sérfræðiskýrslu. Skýrslan laut að verðmæti hlutafjár í tengslum við hlutafjárhækkun í Sameinuðu Sílikoni.
Endurskoðunarfyrirtækið og Rögnvaldur voru sýknuð í héraðsdómi í febrúar fyrir tveimur árum en Landsréttur sneri þeim dómi við í apríl í fyrra og var Ernst & Young og Rögnvaldur dæmd til að greiða þrotabúinu 114.280.000 krónur auk tilgreindra vaxta.
Hæstiréttur veitti áfrýjunarleyfi í júní í fyrra á þeim grunni að dómur í umræddu máli kynni að hafa fordæmisgildi um túlkun 6. gr. laga um hlutafélög og um sérfræðiábyrgð á sviði endurskoðunar. Í beiðni um áfrýjunarleyfi héldu leyfisbeiðendur því fram að einn dómara málsins í Landsrétti, Jóhannes Sigurðsson, hefði verið vanhæfur, sem fyrr segir.
Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að Jóhannes hafi á árunum 2006 til 2009 verið aðstoðarforstjóri Milestone. Í niðurstöðu Hæstaréttar er m.a. vísað til þess að í skýrslu sem Ernst & Young gerði 12. mars 2010 hafi verið að finna margþætta gagnrýni á starfsemi Milestone þar sem Jóhannes gegndi starfi aðstoðarforstjóra. Þá segir Hæstiréttur að ekki verði fallist á „að þeir atburðir sem varða félagið Milestone ehf. séu svo fjarlægir í tíma að áhrifa þeirra gæti ekki lengur enda má ætla að efnahagshrunið 2008 marki enn djúp spor í íslensku samfélagi.“
„Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á að dómur í máli þessu þar sem Jóhannes Sigurðsson tók sæti hafi yfir sér það yfirbragð hlutleysis sem gera verður kröfu um svo að dómstólar skapi sér það traust sem nauðsynlegt er að þeir njóti í lýðræðisþjóðfélagi. Var landsréttardómarinn því vanhæfur til að fara með málið og dæma í því,“ segir í dómi Hæstaréttar og var því hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað til löglegrar meðferðar fyrir Landsrétti.