Lögregla þurfti að skerast í leikinn í Seljahverfi í Breiðholti í dag eftir að tilkynnt var um óvelkominn aðila á svölum. Þetta segir í dagbók lögreglu, þar sem fram kemur að viðkomandi hafi verið vísað í burtu af lögreglu.
Í vesturhluta borgarinnar var mikið um að vera og níu mál skráð hjá lögreglu eftir daginn.
Tilkynnt var um tvær líkamsárásir, annars vegar á hóteli í miðbænum og heimahúsi í Vesturbænum.
Aðilum var vísað úr heimahúsi í miðbænum eftir að hafa brotist þar inn. Annars staðar í miðborginni var tilkynnt um ónæði vegna hávaða frá tónlist.
Þá var einn vistaður í fangaklefa eftir slagsmál í bifreið í Norðurmýrinni. Þar í kring var einnig mikið um tilkynningar til lögreglu, meðal annars um óvelkominn aðila í verslun og um þjófnað á verkfærum og öðru smádóti úr geymslu.
Í Garðabæ barst lögreglu tilkynning um ágreining milli aðila, þar sem rifist var um húsmuni. Í Hafnarfirði var tilkynnt um þjófnað annars vegar og um aðila í annarlegu ástandi hins vegar.
Þá var maður gripinn í Grafarvogi eftir að hafa ekið undir áhrifum áfengis.