Heimastjórn Borgarfjarðar eystri stefnir að því að hefja gjaldtöku í Hafnarhólma í sumar. Fyrst um sinn verði um frjáls framlög gesta að ræða en tilgangurinn með gjaldtökunni er uppbygging Hafnarhólma sem og rannsóknir og verndun lífríkis á svæðinu, samkvæmt fundargerð.
Samþykkt var samhljóða á fundi heimastjórnarinnar að vísa því til atvinnu- og menningarsviðs Múlaþings að undirbúa skiltagerð og aðra verkþætti sem ráðast þarf í.
Þá leggur heimastjórnin til að gengið verði til samninga um notkun á greiðslukerfi Glaze við gjaldtökuna.
Hafnarhólminn er einn allra vinsælasti áfangastaður ferðafólks á Austurlandi en rúmlega 40 þúsund skráðir gestir heimsóttu hólmann á síðasta ári. Aðaleigandi Hafnarhólma er Fuglaverndunarfélag Íslands.
Jón Þórðarson, fulltrúi sveitarstjóra á Borgarfirði eystri, segir mikla umferð vera um Hafnarhólma á sumrin.
„Þarna er lundabyggð sem hefur gríðarlegt aðdráttarafl. Við þekkjum ekki þolmörk fuglalífsins og þau þarf að rannsaka. Við viljum ekki lenda í því að tapa fuglinum en þarna eru margar aðrar fuglategundir en lundi, til að mynda er í hólmanum næst stærsta æðarvarp á Austurlandi.“
Jón segir að sveitarstjórn Múlaþings hafi samþykkt gjaldtöku fyrir einu eða tveimur árum síðan en ekki hafi fundist vinkill á framkvæmdina.
„Þetta er nú bara spurning um að standa undir kostnaðinum. Ef það á að gera þetta almennilega þá þarf tvö ársverk í þetta,“ segir hann.
Hugmyndin er að gestir greiði gegnum sérstakt app til að fá aðgang upp á hólmann en fyrst um sinn verður um frjáls framlög að ræða.