Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður segir tillögu borgarstjóra þess efnis að leggja niður Borgarskjalasafn hafa komið fyrirvaralaust og án nokkurs samráðs. Hætta sé á að upplýsingagjá myndist í gögnum borgarinnar og að gögn jafnvel tapist. Hvetur hún borgarstjóra til þess að endurskoða tillögu sína í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
„Ákvörðun um niðurlagningu Borgarskjalasafns átti að taka á einum fundi borgarráðs, án þess að borgarskjalavörður og starfsmenn fengju að sjá tillöguna,“ skrifar Svanhildur.
Vinna þurfi ítarlegar greiningar og áhættumat á þeirri stóru ákvörðun að leggja niður Borgarskjalasafn með hagsmuni borgarinnar í fyrirrúmi og tryggja þurfi að breytingar verði til batnaðar en ekki afturfarar. Tillagan verður tekin til umræðu á fundi borgarráðs á morgun.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.