Hæstiréttur vísar endurupptökumáli frá dómi

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Jón Pétur

Hæstiréttur vísaði í gær frá dómi endurupptökumáli Sindra Sveinssonar, sem var fyrrverandi starfsmaður eigin fjárfestinga Landsbankans. Endurupptökudómur hafði fallist á með úrskurði sínum 19. maí í fyrra um endurupptöku málsins, hvað Sindra varðaði. 

Sindri hlaut níu mánaða dóm í Hæstarétti í svokölluðu markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans árið 2016, en hann hafði verið sýknaður í héraðsdómi árið 2014. 

Með kærum 20. júlí 2016 og 2. maí 2017 leitaði Sindri til Mannréttindadómstóls Evrópu. Í yfirlýsingu íslenska ríkisins 8. desember 2020 til dómstólsins var viðurkennt að brotið hefði verið á rétti Sindra til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, að því er fram kemur í dómi Hæstaréttar. 

Til stuðnings því var vísað til þess hvernig sýknu Sindra hefði verið snúið í sakfellingu með hliðsjón af reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi. Jafnframt var vísað til dóms mannréttindadómstólsins 25. febrúar 2020 í máli nr. 41382/17, Sigríður Elín Sigfúsdóttir gegn Íslandi, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að leggja til grundvallar að einn dómenda fyrir Hæstarétti hefði verið óvilhallur og málsmeðferð fyrir réttinum hefði því falið í sér brot gegn 1. mgr. 6. gr. sáttmálans.

Á grundvelli umræddrar yfirlýsingar felldi dómstóllinn kæruna af málaskrá sinni með ákvörðun 18. nóvember 2021 samkvæmt heimild í 1. mgr. 37. gr. mannréttindasáttmálans.

Með beiðni til Endurupptökudóms 24. mars 2022 fór Sindri fram á endurupptöku á umræddu hæstaréttarmáli og var fallist á þá beiðni hans sem fyrr segir. 

Fram kom í dómi Hæstaréttar, að ákæruvaldið hefði  tekið undir kröfu Sindra um að málinu yrði vísað frá Hæstarétti.

Þá kemur fram að  allur sakarkostnaður málsins vegna fyrri málsmeðferðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti að því er varðar Sindra greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda hans, 21.952.820 krónur, og verjenda ákærða á rannsóknarstigi málsins, 140.560 krónur, og annars lögmanns, 175.700 krónur.

Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda, 500.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka