Handtekinn í Keflavík grunaður um sprengjuhótun

Maðurinn var handtekinn við komuna hingað til lands.
Maðurinn var handtekinn við komuna hingað til lands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlmaður búsettur hér á landi var í gær handtekinn á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins. Er maðurinn grunaður um að hafa staðið að baki sprengjuhótun sem send var á stofnanir og vinnustaði í Reykjanesbæ í síðustu viku. 

Vísir greinir frá en í umfjöllun þeirra staðfestir Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, að karlmaður af erlendu bergi brotinn, hafi verið handtekinn í gær við komuna til landsins. Maðurinn er sagður vera með langan sakaferil að baki.

Sprengjuhótanir bárust nokkrum stöðum í Reykjanesbæ í síðustuviku, meðal annars Ráðuhúsi Reykjanesbæjar og leikskólanum Velli. Var ráðhúsið rýmt en leiksólinn ekki, þar sem lögreglan taldi ekki þörf á rýmingu. Sprengjuhundur frá sérsveit ríkislögreglustjóra var fenginn til að leita að sprengju í Ráðhúsinu en ekkert fannst þar grunnsamlegt.

Ekki er ljóst hvort óskað verði eftir gæsluvarðhaldi yfir manninum en það skýrist líklega í dag.

Ekki náðist í Gunnar við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert