Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst ánægð með svör Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra við fyrspurn hennar um bættar almenningssamgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Hún segir fyrsta skrefið felast í því að þessar upplýsingar séu nú uppi á borðinu og að það sé grundvallaratriði að almenningssamgöngur virki.
„Fyrst og fremst snéri fyrirspurn mín að því að sjá hvort það væri eitthvað sem stæði í vegi fyrir því í lögum, reglum, samningum eða öðru að Strætó sé með biðskýli langt frá flugvellinum. Ég er mjög ánægð að heyra að svo sé ekki og að afgerandi skref verði nú stigin með því að stofna starfshóp þar sem allir hagsmunaaðilar koma saman,“ segir Hildur.
Hildur kveðst hafa viljað vekja athygli á því að þarna sé um að ræða samgönguæð sem hefur verið í lamasessi og að úrbóta sé þörf.
„Þetta er mikið hagsmunamál fyrir Reykvíkinga og það að það séu engar kynningar um Strætó í flugstöðinni, biðskýlið langt í burtu frá vellinum og óheppileg tíðni Strætóferða er eitthvað sem þarf að bæta,“ segir Hildur.
Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., telur það jákvætt að fjallað sé um málið og segir að ef Strætó fengi meiri athygli í flugstöðvarbyggingunni myndi það að öllum líkindum hafa jákvæð áhrif á nýtinguna.
„Þetta myndi alveg klárlega hjálpa til við bætta nýtingu og jafnframt laga reksturinn. Landsbyggðarvagninn er rekinn með tapi eða framlagi eigenda sem í þessu tilfelli er ríkið,“ segir Jóhannes.
Jóhannes telur það vera mjög jákvætt að vinna sé hafin við kortlagningu á hvernig bæta megi almenningssamgöngur milli Keflavíkurfllugvallar og höfuðborgarsvæðins. Hann telur Strætó vera góðan valkost sem væri enn betri ef biðstöðin væri nær.