Forhönnun á nýju útliti Lækjartorg var kynnt umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í gær. Hönnunin var valin fyrir um ári síðan eftir að efnt hafði verið til hönnunarsamkeppni. Hún þótti „djörf, hlýleg og rómantísk.“
Hönnuðir nýja torgsins eru Karres en Brands og Sp(r)int Studios og kynntu þau hönnunina fyrir umhverfis- og skipulagsráði í gær. Ekki er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á þessu ári.
Þegar hönnunin var kynnt fyrir ári síðan í kjölfar hönnunarsamkeppnar Reykjavíkurborgar og Félags íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) sagði talsmaður teymisins að lögð hafi verið áhersla á að með nýrri hönnun haldist virkni Lækjartorgs sem staðsetning útifunda, viðburða og miðstöð samgangna.
Dómnefnd keppninnar þótti hönnunin lyfta Lækjartorgi upp og tengja saman Stjórnarráðið, Lækjartorg og Bankastræti. Þá feli sveigjanleiki, leikgleði og vel útfærð rými torgsins í sér „ótal möguleika og tækifæri fyrir margvíslega viðburða á á öllum árstímum.“
„Ég hlakka mjög til að sjá þróun þessarar hugmyndar þar sem unnið er með að umhverfið sé lífvænlegt, að það sé mannlegt og þarna geti fólki liðið vel en þarna geti fólk líka komið saman og sagt sína skoðun,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra við kynninguna á sínum tíma.