Rannsókn á Ólafsfjarðarmálinu miðar lítið áfram

Frá Ólafsfirði
Frá Ólafsfirði mbl.is/Sigurður Bogi

Rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra, á manndrápsmálinu á Ólafsfirði, miðar lítið áfram en málið hefur verið á borði lögreglu síðan í október á síðasta ári.  

Þrír sakborningar í málinu, tveir menn og ein kona, hafa gengið laus úr gæsluvarðhaldi síðan í nóvember. Talið er að annar mannanna hafi orðið fórnarlambinu að bana. Einn sakborninganna var eiginkona fórnarlambsins og er grunuð um að hafa áður ráðist að eiginmanni sínum með eggvopni.  

Skarphéðinn Aðalsteinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í svari við fyrirspurn mbl.is enn sé beðið gagna til að ljúka málinu. Svar Bergs Jónssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hljóðaði á sama veg, í janúar á þessu ári. Bergur kvaðst þá vongóður að gögnin myndu berast fljótlega svo hægt væri að ljúka rannsókninni fyrir lok janúar, en svo varð ekki.  

Allir sakborningarnir hafa dóm að baki sér en samkvæmt lögreglu er ekki talin ástæða til að halda neinum sakborninganna í gæsluvarðhaldi. Sakborningurinn sem grunaður er um að hafa orðið manninum að bana liðsinnti lögreglu í að sviðsetja atburðinn í rannsóknarskyni í nóvember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert