Vilja fjölga blóðgjöfum um 33%

Blóðbankinn stefnir á að eiga átta þúsund blóðgjafa eftir tvö …
Blóðbankinn stefnir á að eiga átta þúsund blóðgjafa eftir tvö ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blóðbankinn stefnir á að fjölga blóðgjöfum um tvö þúsund á næstu tveimur árum til þess að búa sig undir hækkun meðalaldurs í þjóðfélaginu. Á Íslandi eru sex þúsund virkir blóðgjafar, um fjögur þúsund eru karlar og um tvö þúsund eru konur. 

„Við vitum það að um allan heim þá hefur orðið fækkun í hópi blóðgjafa,“ segir Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans. „Og sérstaklega hefur um allan heim reynst erfiðara að ná til yngri kynslóðarinnar.“

Hann segir að þar sem Ísland er mjög ungt þjóðfélag miðað við mörg samanburðarlönd okkar sé möguleiki á að vinna með fyrirbyggjandi hætti og beita öllum tiltækum ráðum s.s. öflugu kynningarstarfi til þess að fjölga blóðgjöfum.

Blóðbankinn þurfti seinasta sumar að lýsa yfir tímabundnu neyðarástandi vegna þess að ekki var nægt blóð til að þess að viðhalda nægilegum rauðkornum í öryggisbirgðum. Þá var farið í öflugt kynningarstarf í samstarfi við Landspítala og heilbrigðisyfirvöld. Kynningarátakið skilaði mjög góðum árangri.

Búist er við aukinni þörf á blóðgjöf í framtíðinni vegna …
Búist er við aukinni þörf á blóðgjöf í framtíðinni vegna hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar. Haraldur Jónasson/Hari

Blóðbankabíllinn orðinn 21 árs

„Það er mikilvægt að Blóðbankinn sé þar sem fólkið er,“ segir Sveinn og bætir við að fjölgun staðsetninga þar sem hægt er að gefa blóð hafa gagnast blóðbankanum vel. Nefnir hann þá Blóðbankann í Glerártorgi á Akureyri og Blóðbankabílinn, þar sem safnað er samtals u.þ.b. 35-40% alls blóðs á Íslandi. 

Blóðbankabíllinn safnar um 20% blóðs á landinu en í dag er bíllinn orðinn 21 árs. Sveinn segir að best væri að fá nýjan bíl og helst tvo— einn af svipaðri gerð og núverandi bíl til þess að keyra um suðvesturhornið og nágrenni og annan til þess að hafa norðan heiða fyrir Norðurland og Austurland.

Hann segir að bíllinn hafi verið á forgangslista Blóðbankans í rúm fimm ár en ekki hefur fengist samþykki til að kaupa nýjan bíl. 

Í faraldrinum þurfti að stöðva starfsemi bílsins vegna sóttvarna. Sveinn segir að eftir faraldurinn hafi Blóðbíllinn komið aftur inn í starfsemi Blóðbankans og ljóst er að mikilvægi bílsins muni aukast til framtíðar.

Blóðbíllinn við Höfðabakka.
Blóðbíllinn við Höfðabakka. mbl.is/Þórður

Blóðgjöfum fækkaði á tímum faraldursins

Í covid 19-faraldrinum fækkað í hópi virkra blóðgjafa af mörgum ástæðum. 

Um vor í fyrra höfðu öryggisbirgðir Blóðbankans farið undir viðmiðunarmörk og þá þurfti bankinn að láta í sér heyra.

„Þá voru miklar fjarvistir almennings og þar af leiðandi blóðgjafa. Það var bæði vegna covid-veikinda en líka vegna mikilla utanlandsferða og þá fundum talsvert við fyrir því að við þurftum að berjast mikið fyrir því að viðhalda svokölluðum öryggisbirgðum rauðkorna.“

Hann segir að íslensk heilbrigðisþjónusta eigi íslenskum blóðgjöfum mikið að þakka fyrir að halda uppi heilbrigðisþjónustu um land allt.

Mikilvægt að undirbúa sig fyrir framtíðina

Sveinn segir að nú þurfi að undirbúa fyrir framtíðina, að samsetning þjóðarinnar sé að breytast og fjölgun á öldruðum sé að eiga sér stað. „Þá eykst blóðhlutanotkun. Það er reynsla allra annara landa í kringum okkur sem hafa gengið í gegnum sömu breytingar á síðustu tíu árum.“

„Stóra myndin í þessu er sú að við þurfum að vera með stöðuga kynningu og áminningu um að heilbrigðisstofnanir um land allt þurfi á blóði að halda alla daga. Það þarf ekki að heita blóðskortur eða neyðarástand.“

Það eru á milli 2.000-2500 manns hér á landi á öllum aldri sem þurfa blóð á ári hverju. Stundum er þörf á blóði til krabbameinsmeðferðar. Þörf er á blóði á fæðingadeild og vökudeild og oft þarf blóðhluta til þess að bregðast við slysum.

„Við erum að reyna að komast úr þessari krísuhugsun og horfa fremur til framtíðarinnar.“

Auglýsing bónus án bókstafanna a, b og o.
Auglýsing bónus án bókstafanna a, b og o. Ljósmynd/Aðsent

Fyrirtæki leggja hönd á plóg

Sumar auglýsingar hafa tekið þátt í að aðstoða Blóðbankann í mikilvægu kynningarstarfi. Vöktu margar auglýsingar athygli í gær, þegar bókstafi virtist vanta á auglýsingaskilti á höfuðborgarsvæðinu.

Í umfjöllun á vef Fréttablaðsins er greint frá því að fyrirtæki á borð við Sjóvá, Bónus, Krónuna og fleiri hafi fjarlægt bókstafina a, b og o sem auðkenna blóðflokka úr auglýsingum sínum, til að minna á nauðsyn blóðgjafa í nútímaþjóðfélagi, en verkefnið er unnið af auglýsingastofunni Aldeilis.

Auglýsing fyrir Þjóðhátíð þar sem búið er að fjarlæga bókstafina …
Auglýsing fyrir Þjóðhátíð þar sem búið er að fjarlæga bókstafina a, b og o. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka