„Allt aðhaldið er lagt á almenning“

Kristrún flutti ræðu á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar.
Kristrún flutti ræðu á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar. mbl.is// Kristinn Magnússon

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir ríkisstjórnina hafa að gefist upp á öllu og eftir óslitinn áratug með Sjálfstæðisflokkinn við völd sé kominn tími á breytingar. Við blasi verkefni sem kalli á klassískar lausnir jafnaðarfólks og Samfylkingin ætli að verða ráðandi afl í næstu ríkisstjórn.

Kristrún segir Samfylkinguna ekki í vinsældarkeppni þó flokkurinn mælist sá stærsti á þingi samkvæmt skoðanakönnunum. Þetta er meðal þess sem kom fram í ræðu Kristrúnar á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag.

„Ríkisstjórnin hefur misst stjórn á verðbólgunni og vöxtunum. Og þessi ríkisstjórn var auðvitað fyrir löngu búin að missa stjórn á velferðarkerfinu og húsnæðismálunum. Enda eru velferðarmálin nátengd og í raun grunnur efnahagsmála. Það er samhengi á milli alls, það gerist ekkert í tómarúmi. Þess vegna er þessi verkaskipting í ríkisstjórninni, sem felur í sér að hver ráðherra sitji í sínu horni, með forsætisráðherra sem virðist bara fylgjast með á meðan fjármálaráðherra slær á puttana hjá öllum hinum, svo merkilegt. Hvar er heildarsamhengið, heildarsýnin? Hún er hvergi. Stefnan virðist vera að halda út, viðvera, þaulseta, markmiðin eru nú talin í árum setið ekki út frá þjónustu við almenning,“ sagði Kristrún jafnframt í ræðu sinni.

Ríkisstjórnin sjái ekki samhengi hlutanna

Svo væri ríkisstjórnin hissa á að það væri ólga á vinumarkaði. Hissa á að verkalýðshreyfingin sækti sitt í gegnum launaliðinn, þegar ríkisstjórnin hefði fyrir löngu gefist upp á því að reka velferðarkerfið og styrkja samfélagið.

„Launafólk hefur ekki lengur trú á því að hér sé þjónandi forysta sem stýrir þjóðarskútunni, skapi farveg samhjálpar og skilning á mikilvægi þess að kjarabætur séu sniðnar að þörfum fólksins í landinu gegnum velferðarkerfið okkar.“

Kristrún segir að ríkisstjórnin sjái ekki samhengi hlutanna, eða vilji það hreinlega ekki.

„Þau tala eins og óbreyttir áhorfendur eða álitsgjafar þegar þau eru spurð hvað gera skuli, lýsa bara aðstæðum, láta eins og þau séu ekki lykilgerendur í samfélaginu, eins og þau hafi enga stjórn. Þessi ríkisstjórn á engin svör, ráðherrarnir benda bara á alla aðra og taka enga ábyrgð. Það er bent á fólkið í landinu, sem verður víst bara að eyða minna, og bent á Seðlabankann, sem á víst einn að bera ábyrgð á verðbólgunni samkvæmt nýjustu kenningum forsætisráðherra og fjármálaráðherra.“

Ekki nema von að fólk klóri sér í höfðinu

Nýjasta útspilið sé að benda á aðrar undirstofnanir ríkisins eins og lögregluna og Landhelgisgæsluna sem gangi erfiðlega að veita lögbundna þjónustu innan ramma fjáraga.

„Og síðast en ekki síst er fingrinum auðvitað bent á aðila vinnumarkaðarins, eins og það sé ekkert samhengi, eins og samfélagið sé allt bara einhverjar einingar sem tengjast ekki innbyrðis. Ef marka má málflutning forystu ríkisstjórnarflokkanna er verðbólgan sem sagt öll einhverjum öðrum að kenna. Og staðan í velferðarkerfinu sennilega líka. Þetta er auðvitað vitleysa, algjör flótti undan ábyrgð. Það er ekki nema von að fólkið í landinu klóri sér í kollinum.“

Segir hún ríkisstjórnina ekki hafa kynnt neinar aðgerðir síðasta haust sem hafi áhrif í þjóðhagslegu samhengi.  Á sama tíma hafi krónutölugjöld ríkisins verið skrúfuð í topp, sem leggst þyngra á fólk eftir því sem tekjur þess eru lægri. „Allt aðhaldið er lagt á almenning af þessari ríkisstjórn.“

Samfylkingin hafi hins vegar kynnt kjarapakka til að mæta ástandinu. Flokkurinn hafi haldið uppi einbeittum málflutningi á þingi, sem ekki sé ekki bara innantóm gagnrýni án lausna.

Bara boðið upp á flatan niðurskurð

„Grunnhugmynd kjarapakkans var einföld: Að taka á þenslunni þar sem þenslan er í raun og veru, eftir metár í fjármagnstekjum, metarðsemi hjá stórútgerð og methagnað hjá bönkunum. Og svo höfum við lagt til tímabundna leigubremsu að danskri fyrirmynd og verið algjörlega samstíga með verkalýðshreyfingunni í því máli.“

Tillögurnar hefðu dregið úr halla ríkissjóðs án þess að kalla á niðurskurð í velferðarmálum. Á sama tíma fari ríkisstjórnin hins vegar í þveröfuga átt.

„Jók halla ríkissjóðs úr 90 í 120 milljarða en er nú byrjuð að boða enn og aftur flatan niðurskurð í velferðarkerfinu. Það er lægsti samnefnarinn. Það eina sem ríkisstjórnin getur náð saman um að gera. Flatur niðurskurður.“

Elta ekki skoðanakannanir 

Kristrún sagði eðlilegt að minnast á ris Samfylkingarinnar í skoðanakönnum upp á síðkastið og það væri greinilegt að flokkurinn hefði náð athygli landsmanna. Það væri gott. Hún vildi hins vegar hnykkja á því að Samfylkingin myndi ekki elta skoðanakannanir. Verkefnin væru miklu stærri en það. það væri eitt að ná í gegn, annað að gera eitthvað þegar á hólminn væri komið

„Við erum ekki í einhverri tímabundinni vinsældakeppni, við erum ekki einu sinni í keppni, við erum í pólitík, til að vinna gagn. Og þá þarf að fylgja sannfæringu sinni þó kannanir kunni að sveiflast upp og niður, eins og við vitum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert