Íbúar í Árskógum 1-3 eru ósáttir við að ekki hafi verið komið til móts við þá eftir umkvartanir vegna meintra galla á húsunum. Húsfélagið situr uppi með um 6 milljón króna kostnað vegna þessa og gagnrýnir húsfélagið tómlæti Félags eldri borgara (FEB) vegna málsins.
Málið hefur verið í 3-4 ár í vinnslu að sögn Páls Trausta Jörundssonar, formanns húsfélagsins. Snýst það um meinta galla á bílskúrshurð sem og að ákvörðun var tekin af verktaka að fara á sveig við teikningar á húsinu þannig að ekki var notað affall af heita vatni húsfélagsins til snjóbræðslu á bílaplani. Þess í stað var lögð sér lögn með heitu vatni í bílaplanið sem húsfélagið áætlar að sé aukalegur kostnaður upp á 100 þúsund kr. á mánuði.
Eins og fram hefur komið hefur áður staðið styr um Árskóga 1-3. Þannig var íbúum gert að greiða aukalega greiðslu upp á 5-7 milljónir króna eftir að kaupsamningar voru gerðir árið 2019. Málið olli miklu fjaðrafoki og margir íbúa gengu frá borði með óbragð í munni. Íbúðirnar voru byggðar á kennitölu FEB en ekki byggingarfélags í þessu tilfelli og telja íbúar að ábyrgð á meintum göllum liggi hjá FEB.
Á nýlegum húsfundi húsfélagsins samþykkti stjórnin að senda félagi Eldri borgara ályktun þar sem dræmar undirtektir FEB vegna meints gallamáls eru harmaðar.
„Eftir þriggja ára viðleitni til að ljúka málinu , var slegið á útrétta sáttarhönd okkar. Það er vandséð hvaða tilgangi það þjónar að vera í félagi sem fer fram með áðurgreindum hætti gagnvart félagsmönnum sínum og skjólstæðingum,“ segir í ályktuninni. Er þar vísað til nýlegs sáttafundar.
Dýrleif Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri FEB segir að fjöldi funda hafi verið haldnir vegna málsins á undanförnum árum. „Við hittumst á sáttafundi nýlega þar sem sættir voru ræddar. Við báðum um að formleg beiðni þess efnis myndi berast skriflega en fengum ekki. Ég var á þessum fundi en hafði ekki umboð stjórnar til þess að gera neitt á þeirri stundu,“ segir Dýrleif. Hún segir að þessi beiðni hafi verið ítrekuð.
Þá segir hún jafnframt að skýrleika hafi vantað á ábyrgð Félags eldri borgara í málinu gagnvart húsfélaginu. Páll segir að lögð hafi verið til helmingaskipti á kostnaðinum en vegna tómlætis FEB eftir margra ára þref hafi hann sagt sig úr félaginu ásamt eiginkonu sinni.
Í framhaldinu fékk hann bréf þar sem hann var minntur á kvaðir þess efnis að hann þyrfti að selja íbúð sína í Árskógum eftir úrsögn úr félaginu.
Páll Trausti er 82 ára og segist upplifa þetta sem lítt dulbúna hótun gagnvart talsmanni húsfélags. „Framkoman er í einu orði sagt dapurleg,“ segir Páll og bætir við: „Að vísa á brott fólki á níræðis aldri úr eign sinni er hneykslunarlegt. Hótunin ein segir svo margt um þetta,“ segir Páll Trausti.
Hann segist vita til þess að hann sé ekki fyrsti maðurinn til að greiða ekki gjöld FEB en aldrei hafi hann vitað til þess að fólki væri vísað úr íbúð sinni. „Þetta er sálarslítandi fyrir fólk sem vill njóta næðis og friðar. Við erum beitt ofbeldi af því tagi sem maður gæti ekki ímyndað sér að hagsmunafélag myndi nota,“ segir Páll Trausti.
Hann segir að útlit hafi verið fyrir farsæla lendingu í málinu fyrir um þremur árum en svo hafi ný stjórn tekið við og þá hafi annað hljóð komið í strokkinn.
Páll Trausti segir að um 70 manns hafi verið á fundi húsfélagins þegar ályktun húsfélagsins var samþykkt en 68 íbúðir eru í húsfélagi Árskóga 1-3. Enginn hafi verið mótfallin ályktuninni. „Það er mjög gott að búa hérna og þetta eru ágætis eignir,“ segir Páll Trausti. Hann segir að sökum þess að einungis sé um að ræða 6 milljóna króna kostnað fyrir íbúa hafi verið ákveðið að fara ekki málið fyrir dómstóla.