Líður vel við rannsóknir niðri í kjallara

Stiven Tobar Valencia handboltamaður í Val og landsliðinu og nemi …
Stiven Tobar Valencia handboltamaður í Val og landsliðinu og nemi í lífeindafræði. mbl.is/Árni Sæberg

Enda þótt handboltinn sé tímafrekur eru fleiri hliðar á Stiven Tobar Valencia, nýjasta landsliðsmanni Íslands. Hann leggur til að mynda stund á nám í lífeindafræði við Háskóla Íslands og vonast til að útskrifast með BS-gráðu í vor.

„Ég væri að skrökva ef ég segði að handboltinn hefði ekki komið niður á náminu í vetur; ég hef þurft að fá endalausar undanþágur. En vonandi næ ég að klára í vor,“ segir hann. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á vísindum, rannsóknum og öllu sem snýr að líkamanum, maður er alltaf að læra eitthvað nýtt um hann. Þannig að ég er alveg á réttri hillu í lífeindafræðinni.“

Með námi vinnur Stiven hjá  Alvotech og líkar vel. „Ég byrjaði sem lærlingur hjá þeim í fyrrasumar og það hefur verið mjög gaman að fá innsýn í það hvernig vinnan mín gæti orðið í framtíðinni. Ég má auðvitað ekki gera allt enda ekki kominn með réttindi en það hefur verið fróðlegt að kynnast þessari starfsemi. Þetta er öðruvísi reynsla en mjög skemmtileg.“

 –  Gætirðu hugsað þér að vinna við rannsóknir í framtíðinni?

„Já, ég gæti vel hugsað mér að vera lokaður inni á rannsóknarstofu niðri í kjallara. Það á mjög vel við mig.“

Hann hlær.   

Stiven á fleygiferð með Val.
Stiven á fleygiferð með Val. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Gæinn sem tók yfir tónlistina       

Hvort margir vísindamenn eru einnig plötusnúðar, eða DJ [dídjei] eins og unga fólkið kallar það, skal ósagt látið en það á í öllu falli við um Stiven. „Mér finnst mjög gaman að DJ-ast. Það byrjaði fyrir svona þremur til fjórum árum en ég var oftast gæinn sem tók yfir tónlistina í partíum. Það varð til þess að ég keypti mér litla græju og æfði mig heima. Eitt leiddi af öðru og í dag er ég DJ í hlutastarfi; tek þau gigg sem ég kemst í. Ég kem fram á skemmtistöðum og hjá fyrirtækjum og svo í vísindaferðum háskólanema, svo eitthvað sé nefnt. Það hefur að vísu ekki verið mikill tími til að DJ-ast að undanförnu en ég bæti mér það vonandi upp í sumar.“

Stiven segir tónlist leika stórt hlutverk í sínu lífi. „Ég hlusta mikið á tónlist, ekki síst fyrir einbeitinguna og hugann. Hún hefur hjálpað mér mikið gegnum tíðina. Það fer eftir stemningu hvað ég hlusta á hverju sinni. Mesta ánægju hef ég af hipphoppi og rappi en ég fer líka alveg yfir í væmnara dæmi,“ segir hann hlæjandi.

 – Sérðu þá um tónlistina í klefanum fyrir og eftir leiki hjá Val?

„Nei, Þorgils [Jón Svölu Baldursson] hefur alveg séð um það. Ég gæti þó þurft að fara að taka fram fyrir hendurnar á honum. Hann er ekki alveg að spila réttu tónlistina, karlinn.“

Hann skellihlær. 

Nánar er rætt við Stiven í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert