Skoða að gera hestaíþróttina aðgengilegri

Ráðherra vill stíga af meiri þunga inn í íþróttamál
Ráðherra vill stíga af meiri þunga inn í íþróttamál mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfshópur um nýliðun og aðgengi að hestaíþróttum hefur verið stofnaður af Landssambandi hestamanna og mennta- og barnamálaráðuneytinu. Ráðherra segir hópinn snúast um að lækka þröskuld inn í íþróttina.

Spurður hvernig hafi verið ákveðið að stofna þennan starfshóp og á hvaða grundvelli segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, að Landssamband hestamanna hafi sett sig í samband við ráðuneytið og velt því upp hvernig mætti lækka þröskuld inn í hestamennsku.

„Hestamennskan er þannig íþrótt að þú ert að vinna með lifandi dýr, með gríðarlega háan þröskuld inn í hestamennsku og til þess að börn og ungmenni geti tekið þátt í þessu þá þarf viðkomandi að eignast hest, hnakk og hesthús og helst hafa tengingar inn í hestamennsku,“ segir Ásmundur.

Hugsunin hafi verið að skoða í sameiningu með Landssambandi hestamanna hvort mögulegt væri að gera íþróttagreinina aðgengilega í gegnum hefðbundið frístundastarf, án þess að einstaklingar þyrftu að eiga allan búnaðinn.

„Með þennan háa þröskuld þar sem þú ert að vinna með lifandi skepnur og dýr, sem oft kosta milljónir, þá vildum við skoða möguleikann á því hvort að við gætum orðið að liði í því að teikna upp eitthvað slíkt prógramm og leitt aðila saman í því,“ segir Ásmundur.

Segir hann vinnu starfshópsins snúast um að lækka þröskuld fyrir börn inn í íþróttina.

Aukinn þungi sé settur í íþróttamálin

Þegar því er velt upp hvort starfshópurinn sé hluti af heildarendurskoðun hvað dýrar íþróttir varðar segir Ásmundur ástæðu til þess að skoða íþróttagreinar sem séu ef til vill einstaklingsgreinar með háan þátttökuþröskuld.

„Ráðuneyti barna- og menntamála, við erum með það algjörlega skýrt að við ætlum að fara af auknum krafti og þunga inn í íþróttamálin. Við erum að skoða afreksmálin og málefni íþrótta barna af erlendum uppruna. Við viljum vinna í því að efla íþróttirnar og það sem við kemur þeim inni í ráðuneytinu. Það má segja að þetta sé liður í því líka,“ segir Ásmundur.

Ráðherra nefnir að hann sé í sambandi við fjölmörg sérsambönd og sé nú að heimsækja þau hvert af öðru.

„Við erum í fjölþættu samtali við hin ýmsu sérsambönd og ég fæ þau ýmist til mín. Bæði við íþróttahreyfinguna í heild, í gegnum Íþrótta- og ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands, en líka við einstaka sérsambönd og jaðaríþróttir.“

Ráðuneytið vilji hefja samtal og aðstoða minni greinar við það að efla sig líkt og sé gert fyrir stærri íþróttir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert