Smámunasafn Sverris Hermannssonar fær að vera endurgjaldslaust í óbreyttri mynd í félagsheimilinu Sólgarði í Eyjafjarðarsveit næstu tíu árin hið minnsta.
Þetta varð ljóst eftir að hjónin Kristján Vilhelmsson og Kolbrún Ingólfsdóttir keyptu félagsheimilið af sveitarfélaginu.
„Við kaupum húsið og gerum jafnframt samkomulag við Eyjafjarðarsveit um að Smámunasafnið fái inni í húsnæðinu næstu 10 ár,“ hefur Akureyri.net eftir Kristjáni en samkvæmt samkomulaginu fær safnið að vera í húsinu endurgjaldslaust allan þann tíma.
Kristján segir að helsta ástæða þess að þau hjón kaupa húsið sé til þess að tryggja framtíð safnsins.
Forráðamenn sveitarfélagsins hafa ákveðið að safnið verði opið í sumar eins og venjulega.