Norðmenn hafa ekki farið varhluta af veðurviðvörunum á færibandi frekar en Íslendingar og hafa þær verið nánast daglegt brauð á veðurkortum norsku veðurstofunnar á heimasíðu hennar, Yr.no, síðan löngu fyrir jól.
Er þar mest varað við ástandi fjallvega og fjallað þar um hvers konar úrkomu megi búast við og hve mikið blási. Oft er talið varasamt að vera á ferli og margar viðvaranir um þetta leyti árs snúast um svæði í Norður-Noregi þar sem veður geta orðið allválynd.
Syðri hlutar landsins fá þó alltaf sinn skerf eins og sést á meðfylgjandi mynd frá Valdres-dalnum í Innlandet-fylki, dal sem liggur milli Guðbrandsdals og Hallingdals. Þar var ekki hagkvæmt að fara um í dag með hluti sem taka á sig vind, svo sem hjólhýsið aftan í þessari Volvo-bifreið sem fauk út af veginum og dró bílinn hálfa leið með sér en í honum var fjögurra manna fjölskylda.
Mörgum fjallvegum hefur verið lokað fram á sunnudag en þá er búist við að lægi eitthvað að sögn veðurfræðings sem norska ríkisútvarpið NRK ræddi við.
Ökumanninum með hjólhýsið var fljótlega komið á réttan kjöl svo hann gæti haldið áfram för sinni. Þar var að verki Ståle Wangensteen í Vang Auto-Service en mbl.is hefur áður birt ískyggilega mynd frá dráttarbílstjórum þess fyrirtækis, sumarið 2019 þegar þýskir ferðamenn höfðu misreiknað sig eitthvað, þó í blíðskaparveðri.