Ekki vilji til að leysa málið

Björn kveðst hafa rætt málið við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Björn kveðst hafa rætt málið við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Ljósmynd/Aðsend

„Minnisblað þetta sýnir, svo ekki verði umvillst, að ekki er vilji hjá Heilsugæslunni að leysa þetta mál. Mér skilst að einungis fjórir læknar starfi á Heilsugæslu Grafarvogs. Ef vilji væri fyrir hendi væri lítið mál að finna þeim pláss í húsnæði sem ekki er heilsuspillandi á meðan framkvæmdum stendur.“

Þetta segir Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um minnisblað Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um þá ákvörðun að flytja alla starf­semi Heilsu­gæslu Graf­ar­vogs tíma­bundið í Árbæ­ vegna yf­ir­stand­andi viðgerða á hús­næðinu heilsu­gæsl­unn­ar í Spöng­inni.

Í minnisblaðinu kemur fram að Heilsu­gæsl­an á höfuðborg­ar­svæðinu vilji ekki flytja starf­semi Heilsu­gæslu Grafar­vogs í annað tíma­bundið hús­næði.

Rangt og ólíðandi

„Það er rangt og ólíðandi að eitt af stærstu hverfum borgarinnar, Grafarvogur í Reykjavík þar sem búsett eru um 18.000 manns, sé án heilsugæslustöðvar. Það bitnar verulega á eldri íbúum hverfisins, sérstaklega á þeim sem eiga þess ekki kost að sækja þjónustuna nema með almenningssamgöngum,“ segir Björn.

Björn kveðst hafa rætt málið við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem ætli að ræða málið við heilbrigðisráðherra. Þá munu fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn taka málið upp á borgarstjórnarfundi á þriðjudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert