Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur karlmann á þrítugsaldri sem grunaður er um aðild að líkamsárás í bílakjallara við Glæsibæ í gær, um að gefa sig fram við lögreglu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og tekið er fram að lögreglan viti hver maðurinn er.
Fjórir voru á vettvangi þegar átök brutust út, en fram hefur komið að hníf hafi verið beitt. Sá sem fyrir árásinni varð þurfti aðhlynningu á sjúkrahúsi en meiðsli hans voru ekki alvarleg og var hann útskrifaður skömmu síðar.
Lögreglan leitaði tveggja manna í tengslum við árásina, en annar þeirra er kominn í leitirnar. Hins er enn leitað, eins og áður segir.