Harður árekstur varð á gatnamótum Reykjanesbrautar og Fjarðarhrauns í gærkvöldi. Fimm manns voru í bílunum og voru allir fluttir á slysadeild til skoðunar, en reyndust lítið slasaðir. Báðir bílarnir eru mikið skemmdir eftir áreksturinn.
Ökumaður annars bílsins, sem talinn er hafa valdið árekstrinum, er grunaður um ölvun við akstur og var hann vistaður í fangaklefa eftir skoðun á slysadeild, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.
Þá var maður handtekinn í miðbæ Reykjavíkur grunaður um líkamsárás á skemmtistað. Sá sem fyrir árásinni varð var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
Lögreglan kom manni til bjargar í Vesturbæ Reykjavíkur í nótt þar sem hann lá ósjálfbjarga sökum ölvunar á grasbala. Var honum ekið heim til sín.
Tvö innbrot voru framin á höfuðborgarsvæðinu í nótt, annars vegar í fyrirtæki í Árbæ en ekki er vitað hverju var stolið. Hins vegar var brotist inn í söluturn í Mosfellsbæ, en ekki er enn vitað hversu miklu var stolið.