„Kæri viðkomandi sem þetta gerði, þetta finnst mér afskaplega leiðinlegt og sóðalegt að börnin mín og annarra finni hér í á inni í miðjum bæ.“
Svona hefst færsla Díönu Margrétar Símonardóttur í Facebook-hópnum Fjörðurinn minn Eskifjörður. Færsluna birti hún í gær eftir að börn í bænum fundu fimm dauða kettlinga í ánni Ljósá.
„Lögreglan er búin að hafa samband og þetta er allt komið í ferli,“ segir Díana í samtali við mbl.is. Segir hún aðspurð aldrei hafa séð neitt í líkingu við þetta í firðinum.
„Nei, og þess vegna var okkur og börnunum svona brugðið. Ákváðum við því að setja [færsluna] inn til þess að minna viðkomandi á, og vonandi aðra sem mögulega myndu detta slíkt hið sama í hug, að svona gerir maður ekki.“
Svo virðist, af færslunni að dæma, að bæjarbúar séu margir hverjir reiðir. Jánkar Díana því. Þá kveður hún börnin vera í góðu lagi þrátt fyrir að hafa verið brugðið.
„Þau fengu bara spjall um þetta og svona, viðeigandi meðferð eftir því.“