Þingmaður Sjálfstæðisflokksins telur ekki óeðlilegt að Umboðsmaður Alþingis óski eftir svörum um hæfi ráðherra vegna sölunnar á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka, eftir þinglega meðferð málsins. Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar telur að málið sé að fullu upplýst, en minnihlutinn telur að Alþingi þurfi að skipa rannsóknarnefnd til að varpa betra ljósi á málið.
Umboðsmaður hefur óskað eftir tilteknum skýringum og upplýsingum frá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, um söluna.
Meðal annars er spurt um hvort hæfi Bjarna hafi verið fullnægt að því snertir söluna á hlutum ríkisins í bankanum til Hafsilfurs ehf., sem er félag í eigu Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna.
„Að mínu viti er þetta eðlileg meðferð embættis Umboðsmanns Alþingis á þessu stigi eftir þinglega meðferð á skýrslunni eins og hún var sett fram. Við í meirihlutanum höfum bent á það í allri vinnslu málsins, eins og kemur fram í okkar nefndaráliti, að það flækir málið að það er ekki sérstök umfjöllun í skýrslunni um þá þætti í skoðun ríkisendurskoðanda sem hann mat að væru í lagi,“ segir Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og meðlimur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í samtali við mbl.is. Bendir hún á að þar undir hafi verið hæfi ráðherra
„Ríkisendurskoðandi sagði mjög skýrt á opnum fundi með nefndinni að við skoðun á framkvæmdinni hafi Ríkisendurskoðun ekki séð að ráðherra hafi á nokkrum tímapunkti haft ástæðu til að velta hæfi sínu fyrir sér.“
Hildur segist ekki gera athugasemdir við ósk Umboðsmanns Alþingis á skýringum og upplýsingum um hæfi ráðherra.
„Í raun má segja, eins og við bendum á í okkar áliti, að staðan er sú að auðvitað hefði verið betra að afstaða Ríkisendurskoðunar hefði verið í skýrslunni. Við mátum svo að okkur bæri að taka mjög skýrum orðum ríkisendurskoðanda um að þetta hafi verið skoðað og ekki hafi verið fundið neitt athugavert við hæfi ráðherra,“ segir Hildur og bætir við:
„Það er sá útgangspunktur sem ég geng út með í grein minni í Morgunblaðinu á fimmtudag, eftir að allt þetta umfangsmikla mál hefur verið skoðað, þar sem þetta er bara einn angi málsins af mjög mörgum sem heilt yfir gengu vel, að hægt er að líta svo á að málinu sé lokið.“
Í bréfi sínu benti Umboðsmaður Alþingis á að í umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar megi ekki sjá rökstudda afstöðu til hæfis ráðherra. Hvað það varðar segir Hildur að þar sem ekki hafi verið snert á málinu í skýrslu Ríkisendurskoðunar hafi meirihluti nefndarinnar metið það sem svo að ekki væri rétt að fjalla sérstaklega um það í nefndaráliti.
Í álitinu sé þó fjallað um það að það hefði verið betra ef að fjallað hefði verið um þau atriði sem metin hafi verið í lagi, í skýrslunni.
„Enda komu þessi skýru orð ríkisendurskoðanda um að þau hafi ekki séð neitt athugavert við hæfið mér ekki á óvart þar sem það hefur legið fyrir allan tímann í málinu að ráðherra veitti einungis almennar heimildir, en ekki sértækar gagnvart einstaka kaupendum. Fyrir utan að það hefur líka legið fyrir frá upphafi máls að ráðherra vissi ekki hverjir voru á lista yfir kaupendur fyrr en hann var birtur eftir að útboðið var yfirstaðið,“ segir Hildur.
Spurð hvort hún búist við því að svar ráðherra við spurningum Umboðsmanns Alþingis verði lokapunktur málsins segist hún vænta þess.
„Að mínu viti er lögfræðiálit frá einum tilteknum fyrirframákveðnum aðila ekki réttur farvegur í svona máli. En það er ekkert óeðlilegt við að Umboðsmaður Alþingis spyrji spurninga, eftir þinglega meðferð málsins, um atriði sem hann metur að þurfi að skýra nánar. Því vissulega er þetta atriði ekki að finna í skýrslunni þrátt fyrir að ríkisendurskoðandi hafi verið skýr í orðum sínum um að þetta hafi verið skoðað. Það er bara staðan,“ segir Hildur.
Í nefndaráliti meirihlutans komi enda fram að betra væri til framtíðar ef af hálfu ríkisendurskoðunar væri skýrt hvaða atriði voru skoðuð en hafi verið metin í lagi og því ekki í skýrslunni.
„Allur óskýrleiki í svona viðkvæmum málum veldur auðvitað óþarfa misskilningi,“ segir Hildur að lokum.