Þessa dagana er mikið rætt og skrifað um lyfin Saxenda og Ozempic sem upphaflega eru ætluð sykursjúkum, en vegna þyngdartaps sem þeim fylgir hafa margir freistast til að líta á þau sem lausn við aukakílóunum. Blaðamaður var forvitinn að heyra hvort þarna væri komið töfralyf sem gæti gert alla granna og leyst offituvandamál heimsins. Í myndver Árvakurs mætti því læknirinn Erla Gerður Geirsdóttir til að útskýra málið.
Erla segir að alls ekki eigi að nota lyfin sem megrun því þau séu hugsuð fyrir fólk sem er með röskun á þessu svoköllaðu stýrikerfum.
„Þá er lyfið frábær leið til að koma þessu í jafnvægi,“ segir Erla og útskýrir hvað gerist ef fólk notar lyfið sem megrun.
„Líkaminn fer í svelti. Þá hættir líkaminn að hlusta á lyfið og ræsir hungursneyðarvarnarkerfin sem valta yfir lyfin. Þá stillir hann sig aftur á fitusöfnun. Þannig að ef við setjum þetta lyf í heilbrigðan líkama, þvinga þá í megrun, þá rís líkaminn upp á móti og um leið og fólk hættir á lyfinu þá þyngist það aftur. Þannig að þetta er ekki megrunarlyf heldur lyf til að lagfæra röskun til að koma líkamanum í eðlilega þyngdarstjórnun aftur,“ segir hún.
„Það þarf að hafa í huga að þetta er ævilöng meðferð og er meðferð við offitu,“ segir Erla og segir enn verið að rannsaka hvaða afleiðingar það hefur að ná jafnvægi og kjörþyngd og hætta svo á lyfinu.
Lyfin eru stungulyf og kostar Saxenda fimmtíu þúsund krónur á mánuði, en Ozempic tuttugu þúsund. Lyfin eru aðeins niðurgreidd fyrir fólk með sykursýki eða skilgreinda offitu, en skilyrðin eru ströng að sögn Erlu.
„Það er misjafnt hvort heimilislæknar vilja skrifa upp á þessi lyf, enda hafa sumir ekki kynnt sér málið nægilega vel,“ segir Erla og segir skort á lyfjunum á alþjóðavísu.
„Ég hef heyrt margar sögur að lyfið sé selt á svörtum markaði; því miður.“