Seinni partinn í dag mun Félagsdómur kveða upp dóm í máli sem Alþýðusamband Íslands höfðaði gegn Samtökum atvinnulífsins til að fá verkbann SA gegn félagsmönnum Eflingar dæmt ógilt.
Rúmlega vika er síðan ASÍ tilkynnti um stefnuna gegn SA, en síðan þá hefur ýmislegt gerst í viðræðum SA og Eflingar. Lagði ríkissáttasemjari fram nýja miðlunartillögu á miðvikudaginn og var þá öllum vinnustöðvunum, bæði verkföllum og verkbönnum, frestað meðan atkvæðagreiðsla um miðlunartillöguna fer fram. Niðurstaða hennar mun liggja fyrir um hádegi á miðvikudaginn.
Þrátt fyrir miðlunartillöguna hélt ASÍ stefnu sinni til streitu og mun Félagsdómur sem fyrr segir kveða dóm sinn upp í dag. ASÍ taldi að ákvörðun um verkbann væri ógild, meðal annars sökum þess að stjórn SA hafi verið óheimilt að taka ákvörðun um verkbann og vegna þess að ójafnt atkvæðavægi félagsmanna SA í kosningunni um verkbannið eigi sér ekki lagastoð.
Einnig taldi ASÍ að verkbannsboðun sé talin ólögleg vegna þess að allir félagsmenn SA voru á kjörskrá burtséð frá því hvort þeir starfi á félagssvæði Eflingar eða ekki. Þá tilgreindi ASÍ einnig formgalla á verkbannsboðuninni sem gerðu hana ólöglega.