„Enginn mikilvægur situr inni í þessum réttarsal“

Sakborningarnir fjórir huldu andlit sitt er aðalmeðferð hófst í Héraðsdómi …
Sakborningarnir fjórir huldu andlit sitt er aðalmeðferð hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sakborningarnir fjórir í stóra kókaínmálinu svokallaða greindu allir frá gríðarlegu álagi og pressu sem þeir voru undir er sendingin af tæplega 100 kílóum af meintu kókaíni kom hingað til lands síðasta sumar. Þá sögðu þeir allir að hlutdeild þeirra að málinu væri takmörkuð, eða líkt og einn þeirra orðaði það „enginn mikilvægur situr inn í þessum réttarsal“.

Páll Jóns­son, Daði Björns­son, Jó­hann­es Páll Durr og Birg­ir Hall­dórs­son báru allir vitnisburð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag er aðalmeðferð í málinu hófst, 19. janúar. Fjölmiðlum var hins vegar óheimilt að greina frá því sem þar fór fram fyrr en að vitnaleiðslum væri lokið. 

Mennirnir fjórir eru allir ákærðir fyrir skipulagða brotastarfsemi, tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots og hafa haft um­tals­verðar óút­skýrðar tekj­ur sem talið er að þeir hafi aflað sem ávinn­ings af refsi­verðum brot­um. Eru upphæðirnar frá 13 og upp í 17 milljónir á hvern einstakling, samtals 63 milljónir.

Stærsta kókaín­mál sem hef­ur komið upp hér á landi

Upphaf málsins má rekja til þess er lögregla fékk upplýsingar um það að hópur manna væri að flytja inn mikið magn af kókaíni hingað til lands. Á rannsóknartímabilinu fylgdist lögregla með ákærða og meðákærðu auk þess sem lögregla beitti rannsóknarúrræðum með heimild dómstóla.

Í ákæru héraðssaksóknara segir að sakborningarnir ásamt óþekktum aðila, stóðu saman að innflutningi á 99,25 kílóum (með 81%-90% styrkleika) af kókaíni hingað til lands frá Brasilíu með viðkomu í Rotterdam í Hollandi. 

Kókaínið sem hollenska lögreglan fann í timbrinu.
Kókaínið sem hollenska lögreglan fann í timbrinu. Ljósmynd/Hollenska lögreglan

Fíkniefnin voru falin í sjö trjádrumbum sem komið var fyrir í gámi en efnin voru haldlögð af hollenskum yfirvöldum þann 30. júní árið 2022. Gerviefnum var síðan komið fyrir í trjádrumbunum og kom gámurinn hingað til lands aðfaranótt 25. júlí og var afgreiddur af tollsvæði þann 2. ágúst. 

4. ágúst voru trjádrumbarnir síðan fluttir að Gjáhellu í Hafnarfirði, þar sem hin ætluðu fíkniefni voru fjarlægð úr trjádrumbunum af Daða. 

Hann pakkaði þeim þar niður og flutti til ótilgreinds aðila til að hægt yrði að koma efnunum í sölu og dreifingu. 

Lögregla lagði hins vegar hald á hluta af ætluðum fíkniefnunum í bifreið Daða sem var lagt við Vefarastræti í Mosfellsbæ. Mennirnir fjórir voru handteknir sama kvöld. 

„Andlegt þrot“

Páll Jónsson var fyrstur til að gefa skýrslu en hann er á sjötugsaldri og átti fyrirtækið, Hús og Harðviður, sem flutti inn timbrið sem fíkniefnin voru falin í. 

Páll lýsti því fyrir dómnum að „andlegt þrot“ hefði leitt til þess að hann samþykkti að flytja inn kókaínið. Hann greindi nokkrum sinnum frá því að hann hafi flutt inn timbur í áratugi og aldrei áður framið glæp. Hann sagðist eiga venjulega fjölskyldu, uppkominn börn og barnabörn. 

Þá sagðist hann ekki eiga nein sambönd við undirheima á Íslandi né í Brasilíu.

Páll Jónsson er 67 ára gamall og sá um kaup …
Páll Jónsson er 67 ára gamall og sá um kaup á timbrinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sakaður um lygar

Vitnisburður Páls stangaðist á við vitnisburð Jóhannesar og Birgis og sökuðu þeir báðir Pál um lygar. 

Héraðssak­sókn­ari óskaði eft­ir því upp­haf­lega að sak­born­ing­arn­ir vikju úr dómsal á meðan hver og einn gæfi skýrslu en dóm­ur­inn hafnaði þeirri kröfu.

Úr varð því að Jóhannes og Birgir hlustuðu átekta er Páll bar vitnisburð. 

Páll greindi frá því að hann hafi kynnst Birgi árið 2019, þar sem að Birgir hafði áhuga á að taka á leigu gistiheimili.

Þá hafi hann kynnst Jóhannesi í júlí árið 2021 og í kjölfarið nánast eingöngu haft samband við hann að tilstuðlan Birgis. Þá sagði Páll að Jóhannes hafi aldrei tekið neinar ákvarðanir heldur verið milliliður. 

Jóhannes og Birgir sögðu það hins vegar vera rangt. Þeir sögðust hafa þekkt son Páls en ekki haft samskipti við Pál að neinu ráði fyrr en árið 2022. 

Birgir sagði það þó rétt að hann hafi átt í samskiptum við Pál árið 2019, en það hafi verið að frumkvæði Páls sem vildi fá hann til þess að leigja húsnæðið. Eftir það hafi hann einungis einu sinni átt í samskiptum við Pál.

„Ég var búinn að gefast upp

Páll greindi hins vegar frá því að hann hafi síðan pantað hús í gegnum fyrirtæki sitt að ósk Birgis. Páll sagði að í þeim viðskiptum hafi aldrei hafi komið til tals að flytja inn fíkniefni. 

Er saksóknari spurði Pál hvernig það hafi borist í tal að flytja inn kókaínið sagði Páll að Birgir hafi nefnt það við hann. Fíkniefnaflutningurinn hafi ekki verið að frumkvæði Páls og hann sagðist ekki vita hver átti efnin upphaflega. 

„Ég lét til leiðast. Það voru mín mistök,“ sagði Páll og nefndi að hann hafi verið kominn í „andlegt þrot“ á þessum tímapunkti í lífi sínu. Hann greindi frá því að árið 2021 hafi hann misst bæði son sinn og tengdamóður. Þá hafi stjúpsonur hans glímt við alvarleg veikindi.

„Ég var búinn að gefast upp,“ sagði Páll.

„Ég veitti enga mótspyrnu. Þetta var einhver uppgjöf. Búin að missa alla orku“.

Páll sagði að röð af áföllum hafi leitt til þess …
Páll sagði að röð af áföllum hafi leitt til þess að hann samþykkti að taka þátt í flutningnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Splunkunýir seðlar

Páll sagði að Jóhannes hafi látið hann fá umslög af seðlum, að jafnaði um eina og hálfa milljón sem Páll hafi notað til þess að kaupa timbrið. Páll ítrekaði að hann hafi einungis annast kaup á timbri og leigu á gámum, hann hafi aldrei keypt eða selt fíkniefni. 

Er saksóknari spurði Pál nánar út í greiðslurnar sagðist hann ekki hafa séð neitt athugavert við það að fá greitt í seðlum, né spurt hvaðan peningarnir komu. Páll sagði þó að honum hafi þótt athugavert að seðlarnir litu alltaf út eins og glænýir. Hann sagðist hafa haldið að seðlarnir kæmu bara beint úr banka.

Aldrei tekið þátt í svona „brjálæði“

Páll greindi frá því að það átti að fela kókaínið í timburdrumbunum og að hann hafi haldið að um sex kíló væri að ræða. Þá sagðist hann ekki vita hvaðan kókaínið kom.

Er leið á sagðist Páll hafi snúist hugur sem hann greindi Jóhannesi síðan frá. Jóhannes tjáði Birgi það síðan sem kom til Páls og sagði honum að það væri ekki aftur snúið og að „það yrði allt vitlaust“ ef hann myndi hætta við. 

Birgir sagði í sinni skýrslutöku síðar um daginn það vera lygi. 

Páll ítrekaði að hann hafi aldrei tekið þátt í svona „brjálæði“ og hafði ekki hugmynd um að um væri að ræða 100 kíló.

„Ég féll saman,“ sagði Páll er hann fékk að heyra hversu mikið magnið væri.

Páll sagði að hann hafi reynt að fá svör um sendinguna frá Jóhannesi sem hafi ætíð tjáð honum að „strákarnir“ myndu sjá um málið. Hann hafi hins vegar aldrei fengið nein svör.

Páll sagðist ekki hafa hugmynd um hvaða strákar það voru, „[það] kom mér það ekki við.“

Umtalsverð upphæð

Spurður um hvað hann ætti að fá í greiðslu fyrir smyglið sagðist Páll ekki hafa vitað hvað hann ætti að fá greitt. Upphæðin yrði þó umtalsverð.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði Landsréttar frá 19. september sagði að Páll hafi átt að fá 30 milljónir fyrir sinn þátt. Í seinni skýrslutökum dró hann það hins vegar til baka. 

Í skýrslutökunni fyrir dómnum bar Páll fyrir sig að lögreglan hafi ruglað hann í ríminu í yfirheyrslunni. Lögreglumaður hafi nefnt við hann 30 milljónir sem Páll samsinnti án þess að átta sig á því hvað hann var að segja. Hann sagði aldrei neina peningaupphæð hafa verið nefnda við hann í tengslum við innflutninginn.

Páll sagðist hafa treyst Jóhannesi og Birgi þar sem að fyrri timburviðskipti þeirra hafi staðist.

Eftir að málið komst upp sagði Páll að hann hafi þó upplifað að Jóhannes og Birgir hafi notað hann og hans reynslu á timburinnflutning frá Brasilíu. 

Stafi ekki ógn af honum

 „Þetta hefur tekið gríðarlega á mig,“ sagði Páll í skýrslutökunni og nefndi þá sérstaklega að hafa verið settur í einangrun í hálft ár. 

Honum hafi verið greint frá því að einangrunin væri á grundvelli almannahagsmuna sem Páll sagðist ekki skilja þar sem búið væri að eyða fíkniefnunum og engin ógn stafaði af honum. 

Páll hefur verið í fangelsinu á Hólmsheiði frá því að hann var handtekinn en hinir sakborningarnir hafa dvalið á Litla-Hrauni. 

Maður í manns stað

Næstur í skýrslutöku var Daði en hann er þrítugur Reykvíkingur og þekkti ekki til hinna sakborninganna fyrr en eftir handtöku. 

„Ég játa og harma að hafa fallist á þátttöku í þessu máli,“ sagði Daði í upphafi vitnisburðar síns og sagði að hann hafi komið inn sem maður í manns stað í málinu. 

Daði sagðist hafa verið fenginn í afmarkað verkefni fyrir tilstilli manns sem hann þekkti lítið sem ekkert en þeir ættu sameiginlegan vin. 

Sá maður hafi sagt að Daði virtist áreiðanlegur og því hafi Daði samþykkt að taka þátt í málinu í ákveðnu kæruleysi og meðvirkni. 

Hann bar fyrir sig að hafa verið í mikilli neyslu kannabisefna og sljóvgandi lyfja á þessum tíma. 

Úr dómssal er aðalmeðferð hófst.
Úr dómssal er aðalmeðferð hófst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Átti að geyma trjádrumbana

Daði sagði að þessi ónefndi aðili hafi beðið hann um að geyma trjádrumba fyrir sig í húsnæði sem Daði hafði á leigu. 

Hann sagði að maðurinn hafi ekki greint Daða frá því hvað væri í drumbunum og Daði ekki spurt í hvaða tilgangi hann ætti að geyma drumbana. Á þeim tímapunkti hafi enginn sérstök greiðsla verið rædd. 

Daði sagði að hann hafi fundið fyrir miklum þrýstingi frá þessum ónefnda aðila og fundist hann vera fastur. Hann sagði samskiptin hafa valdið honum mikilli streitu. 

Daði fékk síðan þau fyrirmæli að fjarlægja efnin sem væru i í drumbunum. Hann hafi þá áttað sig á að um væri að ræða ólögleg efni. 

Líkt og Páll sagði Daði að hann hafi aldrei staðið í neinu slíku áður. 

Vigtaði 35 kíló 

Kom síðan til að Daði leigði húsnæðið á Gjáhellu í Hafnarfirði þangað sem drumbarnir voru fluttir. 

Þar opnaði Daði drumbana og fann inni í þeim pakkningar, en líkt og áður sagði hafði lögreglan í Hollandi fjarlægt kókaínið og sett í staðinn gerviefni. 

Daði sagðist þá hafa vigtað 35 kíló sem hann pakkaði niður og fór með í Mosfellsbæ. Restina skildi hann eftir í tösku í Gjáhellu.

Grafa holur í Heiðmörk

Hann sagði í skýrslutökunni að hann vissi ekki hver ætti efnin né hverjir stæðu að sölunni. Hann hafi einungis verið í samskiptum við þennan ónefnda aðila í gegnum forritið Signal og hitt hann nokkrum sinnum.

Þá hafi komið til tals að grafa holur í Heiðmörk til að fela efnin en ekki hafi orðið úr því. 

Fyrir verkefnið átti Daði að fá fimm milljónir króna. Hann greindi frá því að hann hafi einungis fengið peninga fyrir verkfærum til að opna drumbana og til þess að greiða leiguna á Gjáhellu áður en hann var síðan handtekinn. 

Daði sagði í vitnisburði sínum að hann hafi upplifað mikla skömm í tengslum við málið og að hann hafi verið gerður að ákveðnu burðardýri. 

Viðurkenndi kannabisræktun

Daði er einnig ákærður fyrir að hafa í vörslu sinni maríjúana og verið með 24 kannabisplöntur í húsnæðinu sem hann leigði í Vefarastræti. 

Daði viðurkenndi fyrir dóminum að hafa selt eitthvað af maríjúana, en mikið hafi verið til einkanota. Hann sagðist ekki vita hvað hann hafi grætt mikið á þeirri sölu. 

Er saksóknari spurði Daða út í framfærslu hans síðustu ár sagðist hann hafa fengið aðstoð frá fjölskyldu og kunningjum, grætt eitthvað á að spila póker og síðan kannabisræktunin. 

Daði sagðist ekki geta gert greint fyrir óútskýrðum færslum á bankareikning hans, alls um 19 milljónir króna. Þrjár milljónir greiddi hann þó til baka.

Að lokum sagðist Daði hafa nýtt tíma sinn í gæsluvarðhaldi til betrunar. Hann hafi farið að stunda nám aftur og nýtt meðferðarúrræði. 

Vildi vita sem minnst 

Jóhannes var þriðji til að gefa vitnisburð en líkt og áður sagði mótmælti hann vitnisburði Páls og sagði að Birgir hafi ekki haft neitt með hans aðkomu að málinu að gera. Þeir hafa þó verið góðir vinir í meira en áratug. 

Þá sagði Jóhannes að Birgir hafi flækst inn í málið á eftir Jóhannesi, ólíkt því sem Páll greindi frá. 

Jóhannes sagði að hann hafi verið blankur um mitt ár 2022 sem leiddi til þess að hann samþykkti tilboð ónafngreinds aðila sem bað hann um að sjá um lítið verkefni í maí á því ári. 

Verkefnið snerist um að vera milliliður í málinu og að hann myndi fá greitt fimm milljónir fyrir. 

Páll Jónsson, Daði Björnsson og Jóhannes Páll Durr.
Páll Jónsson, Daði Björnsson og Jóhannes Páll Durr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhannes sagðist upphaflega ekki haft neina vitneskju um að flytja ætti inn kókaín en hafi þó fljótlega gert sér grein fyrir því að hann væri ekki að fá greitt svo mikinn pening fyrir eingöngu timbursendingu. 

Jóhannes sagðist aldrei hafa spurt nánar út í ólöglegu efnin og viljað vita sem minnst um málið. Hann sagðist þó ekki hafa reynt að koma sér út úr verkefninu er hann áttaði sig á að um ólögleg efni væri að ræða.

Jóhannes líkt og hinir sakborningarnir sagðist ekki hafa áttað sig á umfangi magns kókaínsins. 

Þá sagðist hann ekki vita hverjir sáu um sendinguna og að hann hafi einungis verið fengið í verkefnið til að „lengja keðjuna“. 

Bullaði til að gefa einhver svör

Jóhannes sagði að hans hlutverk hafi snúist um að setja upp síma fyrir Pál og færa honum peninga. Peninganna hafi hann fengið frá öðrum aðilum sem hann þekkti ekki. 

Er saksóknari spurði Jóhannes út í skilaboð sem hann hafði sent í gegnum forritið Signal sem bentu til ýmissa tengsla hans við sendinguna sagðist Jóhannes ekki greint nánar frá þeim eða að hann hafi verið að „bulla“ til þess að gefa einhver svör. 

Jóhannes sagðist hafa upplifað mikla vanlíðan vegna málsins. 

Millifærslur á milli vina

Í ákæru saksóknara er greint frá 17 milljónum á bankareikning Jóhannesar sem eru óútskýrðar tekjur. 

Hann sagðist ekki hafa aflað sér þá með saknæmum hætti heldur væri um millifærslur á milli fjölskyldu og vina að ræða. Mikið af því hafi hann greitt til baka. Sömu sögu hafði Birgir að segja. 

Jóhannes sagði að hann og Birgir hafi oft lánað hvor öðrum ef þeir voru í bobba en annars hafi enginn fjármálatengsl verið á milli þeirra. 

Þá keypti Jóhannes tæplega fimm milljónir í gjaldeyri sem hann sagði heldur ekki vera óeðlilegt þar sem hann ferðaðist mikið erlendis. 

Jóhannes var á tímabili liðsstjóri ís­lenska landsliðsins í raffót­bolta. Hann sagðist einnig hafa starfað við ýmis störf í veitingageiranum og stundað fjárhættuspil. 

Í „sjokki“ yfir vitnisburði Páls

Jóhannes og Birgir sögðu í vitnisburði sínum að Páll væri að ljúga til um komu þeirra að málinu, annað hvort til þess að bjarga sjálfum sér eða öðrum.

Jóhannes ítrekaði að hann hafi ekki hitt Pál fyrr en í maí 2022 og hafði ekki haft neina vitneskju um framgöngu málsins fyrir það. 

Því sagðist hann vera í „sjokki“ yfir vitnisburði Páls. 

Miður að missa af tíma með börnunum

Birgir var síðastur í skýrslutöku dómsins og ólíkt hinum sakborningunum sagðist hann hafa verið á góðum stað í lífinu undanfarin ár. 

Hann eignaðist barn árið 2021 og gengið í föðurstað fyrra barns barnsmóður hans. Birgir sagðist því vera miður sín að missa af tíma með börnunum. Þá hafi hann haft góðar tekjur undanfarin ár af því að gegna stöðu verkstjóra í ýmsum byggingarverkefnum. 

Hann sagði að aðili, sem hann vildi ekki greina frá hver væri en hafði notenda nafnið Nonni í símanum hans, hafi komið til hans og beðið hann um að aðstoða við ólöglegan innflutning. Birgir sagðist hafa neitað að taka þátt. 

Sami aðili kom þá aftur á tali við hann í lok maí á síðasta ári og bauð honum fimm milljónir fyrir nokkurra daga vinnu. 

Birgir sagði að þáttaka hans að málinu hafi aldrei átt að vera meiri en að vera tengiliður á milli aðila er gámurinn kom til landsins. 

„Ég átti aldrei að gera neitt annað en að koma skilaboðum á milli manna.“

Fyrir aftan verjendur sitja Jóhannes og Birgir.
Fyrir aftan verjendur sitja Jóhannes og Birgir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hélt að um stera væri að ræða

Þá sagðist Birgir aldrei hafa komið að kaupunum á kókaíninu né pantað timbrið frá Brasilíu. Hann sagði að gámurinn hafi verið kominn af stað er hann kom að málinu.

„[Ég] hefði aldrei tekið þátt í þessu ef ég hefði vitað umfangið,“ sagði Birgir og bætti við að hann sæi eftir að hafa látið draga sinn inn í málið. 

Birgir sagði að hann hafi upphaflega haldið að um væri að ræða stera en síðan hafi komið í ljós að efnið hafi verið kókaín. Hann sagðist þó ekki hafa vitað magnið. 

Þá sagði Birgir að hann hafi ekki vitað að Jóhannes væri viðloðinn málið fyrr en eftir að hann samþykkti að taka þátt. 

„Ekki höfuðpaurarnir í þessu máli“

Birgir sagði að lögreglan gerði sér grein fyrir að því að sakborningarnir „væru ekki höfuðpaurarnir í þessu máli“. Þá ítrekaði hann að fleiri aðilar ættu að vera sakborningar í málinu. 

„Enginn mikilvægur situr inn í þessum réttarsal.“

Líkt og allir aðrir sakborningarnir greindi Birgir frá mikilli pressu vegna málsins.  

Hann ítrekaði að hann hafi aldrei tekið neina sjálfstæða ákvörðun vegna málsins, heldur verið milliliður til að koma skilaboðum á leiðis. 

Há­marks­refs­ing fyr­ir fíkni­efnainn­flutn­ing er tólf ára fang­elsi, en ofan á það gætu bæst dóm­ar fyr­ir pen­ingaþvætti. Því er ljóst að ef menn­irn­ir verða fundn­ir sek­ir gætu þeir átt yfir höfði sér langa fang­elsis­vist.

Á miðvikudag er gert ráð fyrir málflutningi saksóknara og verjanda í málinu og þá má búast við dómsuppkvaðningu um fjórum vikum síðar.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert