„Maður trúir þessu varla. Að hafa lent á svona ótrúlegum leik,“ segir Axel Þór Ásþórsson sem fór í jómfrúarferð sína á Anfield og varð vitni að sjö marka sigri Liverpool á Manchester United í gær.
Ferðin var fertugsafmælisgjöf frá konunni, Grétu María Valdimarsdóttur. „Hún hefur lag á að velja réttu leikina hún Gréta,“ segir Axel og bætir við. „Þetta var lygilegt. Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem til Liverpool og í fyrsta skipti sem ég fer á leik í ensku knattspyrnunni. Líkurnar á því að hitta á þennan leik eru nær engar. Þvílík afmælisgjöf!“ segir Axel kampakátur.
„Andrúmsloftið var rosalegt. Ég hef farið á leiki í spænsku knattspyrnunni en í þetta skipti hélt ég með öðru liðinu. Það trylltist allt á vellinum við fyrsta markið og það er náttúrlega rosalega gaman,“ segir Axel. Hann segist hins vegar hafa verið meðvitaður um að brugðið gæti til beggja vona þar sem Manchester United hefur átt góðu gengi að fagna að undanförnu. Allur seinni hálfleikur eftir þó byrjunin hafi verið góð.
Eins og lög gera ráð fyrir sótti Axel sér bjór í hálfleik og líkt og lögmálið um orsök og afleiðingu ber með sér þurfti hann á klósettið skömmu síðar. Raðir eru í lengri kantinum þegar tugir þúsunda manna ákveða að létta á sér á sama tíma og reyndist það örlagaríkt fyrir Axel. „Ég missti af fyrstu mínútunum í síðari hálfleik og sé þegar ég kem til baka að það eru komin tvö mörk til viðbótar. Ég vissi varla hvað hafði gerst því það var allt að verða vitlaust. Ég dreif mig inn á völlinn og sem betur fer hélt þessi flugeldasýning áfram,“ segir Axel.
Áður en yfir lauk hafði Liverpool skorað fjögur mörk til viðbótar. „Það var eitthvað sem lá í loftinu, algjörlega rafmögnuð stemning og maður vissi einhver veginn að þegar Liverpool var að fara í sókn þá myndu þeir skora. Það ætlaði allt um koll að keyra,“ segir Axel.
Axel segir að í stöðunni 5-0 hafi stuðningsmenn heimtað sjötta markið og sungið „We want six“. „Og þegar það kom þá höfðu stuðningsmennirnir ekki einu sinni tíma til að biðja um sjöunda markið því það kom strax á eftir. Þá heyrðist í öllum; we want eight,“ segir Axel og hlær með sjálfum sér um leið og hann leyfir minningunum að ylja sér.
Að sögn Axels sat honum nærri íslensk stúlka sem heldur með Manchester United. „Henni fannst þetta bara ekkert sniðugt,“ segir Axel í gamansömum tón.
Hann segist gera ráð fyrir því að hér eftir verði honum boðið á alla leiki Liverpool þar sem augljóslega sé hann lukkudýr. Hans uppáhalds leikmaður er Virgil van Djik ásamt því sem Mohammed Salah er í uppáhaldi.
„Ég hef haldið með Liverpool síðan ég var lítill strákur og ég er svona týpan sem fylgist betur með því betur sem gengur,“ segir Axel. Bætir hann því við að hann geri ráð fyrir því að styttra verði í næstu heimsókn á Anfield Road.
„Það er klárt mál. Mér fannst þetta svo ótrúlega skemmtilegt. Borgin er lítil og krúttleg. Leikvangurinn inni í íbúðahverfi og krakkar voru að leika sér í fótbolta á nærliggjandi grasbletti. Það kom í raun á óvart hvað allt var heimilislegt. Þetta var skemmtileg stemning sama hvernig á það er horft. Ég get staðfest að það verði ekkert svaka langt í næsta leik,“ segir Axel kátur að lokum.