Gæludýr má ekki aflífa nema hjá dýralækni

Atvikið varð á Eskifirði.
Atvikið varð á Eskifirði. mbl.is/RAX

Börn á Eskifirði fundu um helgina dauða kettlinga í læk nærri heimili sínu. Íbúi á Eskifirði setti myndir af kettlingunum á íbúahóp Eskifjarðar á Facebook og lýsti reiði sinni vegna meðferð dýranna. 

Fram kemur í svari Matvælastofnunar við fyrirspurn mbl.is að til standi að fá hræin til rannsóknar frá lögreglu. Að undangenginni rannsókn verði tekin ákvörðun um það hvort málið verði kært til lögreglu.

Hugsanlega brot gegn lögum

„Það sem við vitum nú um þetta mál er að lögregla fékk um helgina ábendingu þess efnis að kettlingar lægju dauðir í lækjarfarvegi á Eskifirði. Þó ekki séu beinar vísbendingar um að þeim hafi verið drekkt hefur lögregla fengið hræin í sína vörslu og mun afhenda Matvælastofnun þau til rannsóknar,“ segir í skriflegu svari frá Mast. 

Þá segir að hugsanlega hafi brot verið framin gegn 1. mgr. 15. gr. reglugerðar um velferð gæludýra, nr. 80/2016 og sömuleiðis gegn 2. mgr. 21. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra.

„Almennt er bannað að drekkja dýrum með einni undantekningu sem snýr að villtum minkum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, segir í svarinu.

Þá kemur jafnframt fram að ekki sé tímabært að segja til um hvort málið verði kært til lögreglu. Aðstæðurnar sem kettlingarnir fundust í virðast benda til þess að þeim hafi verið drekkt í læknum.

Algengara fyrr á árum

Þorsteinn Bergsson hjá Mast segir í samtali við mbl.is að þessi leið til þess að aflífa hvolpa og kettlinga, með því að drekkja þeim, hafi verið algengari hér áður fyrr.

Það sé skýrt í lögunum um velferð dýra sem samþykkt voru árið 2013 að slíkt sé með öllu óheimilt í dag.

Þá segir hann að nú til dags séu ýmis dýrahjálparsamtök sem hægt er að leita til, þurfi einstaklingur að losa sig við gæludýr.

Hér má sjá kettlingana fimm.
Hér má sjá kettlingana fimm. Ljósmynd af Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert