Húsnæðismarkaður er hálffrosinn

Mikið er byggt á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir.
Mikið er byggt á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir. mbl.is/Sigurður Bogi

„Háir vextir og verðbólga eru farin að bíta, svo húsnæðismarkaðurinn er hálffrosinn,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. „Við slíkar aðstæður hægir eðlilega á markaðinum sem þó kallar eftir að áfram verði byggt, eins og ég tel líka að eðlilegt sé að ríkið styðji við. Fyrir sveitarfélög eru hraður vöxtur og uppbygging áskorun. Aðkoma ríkisins að málum getur því verið nauðsynleg og slíkt viljum við líka gera.“

Í Morgunblaðinu á laugardag var sagt frá mikilli uppbyggingu í Vogum á Vatnsleysuströnd. Þar eru nú 250 íbúðir í byggingu og búist er við að íbúum í byggðarlaginu fjölgi um vel á þriðja hundrað á árinu. Fyrir fjárhag sveitarfélagsins er þróun þessi krefjandi. Því nefnir Gunnar Axel Axelsson sveitarstjóri þá hugmynd að settur verði á laggirnar innviðasjóður, þar sem sveitarfélög sem þurfa að ráðast í stór fjárfestingarverkefni vegna fjölgunar íbúa geti sótt stuðning.

Síðastliðið sumar var undirritað samkomulag ríkis og sveitarfélaga um byggingu 35 þúsund nýrra íbúða á næstu tíu árum. Markmiðið er að tilbúnar verði minnst 4.000 íbúðir á ári fyrstu fimm árin og 3.500 íbúðir hin fimm síðari. Einnig að ríki og sveitarfélög komi að byggingu allt að 30% þessara íbúða, með stofnframlögum, hlutdeildarlánum, aðgangi að hagkvæmu lánsfé og fleiru slíku. Þannig verði hægt að tryggja nægt framboð eigna á viðráðanlegu verði. Þá er stefnt að því að 5% tilbúinna eigna verði félagslegar, það er til útleigu fyrir fatlað fólk, efnaminni hópa og svo framvegis.

Hægt er að lesa umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert