Sagnfræðingafélag Íslands hvetur sagnfræðinga, Félag sögukennara, háskólakennara og hver önnur þau sem hagsmuna hafa að gæta, til að láta í sér heyra vegna tillögu meirihluta borgarstjórnar um að leggja niður Borgarskjalasafn í núverandi mynd.
Eins hvetur stjórnin borgarstjórn að fresta öllum ákvörðunum um framtíð safnsins uns ítarlegt samráð hefur verið haft við Borgarskjalasafn, Þjóðskjalasafn, sagnfræðinga, safnafólk og annað fagfólk.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu félagsins en á fundi borgarráðs í síðustu viku var tillagan samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúum meirihlutans en málið verður lagt fyrir borgarstjórn á morgun.
„Sagnfræðingafélagið ítrekar það mat að fyrirhugaðar breytingar yrðu mikil afturför. Slíkt safn veitir almenningi aðgang að sögu sinni, varðveitir sögu einstaklinga og stofnana á svæðinu. Þannig þjónar Borgarskjalasafnið íbúum borgarinnar öllum, nemendum á hverju skólastigi, stjórnmálamönnum, embættismönnum og fræðasamfélaginu af mikilli fagmennsku.
Ekkert samráð var haft við borgarskjalavörð eða aðra fagmenn, og vangaveltur stjórnmálamanna um einhvers konar samtal eftir að borgarstjórn hefur tekið ákvörðun skjóta skökku við. Eins hlýtur atferli af þessu tagi að vekja ugg um framtíð annarra menningarstofnana Reykjavíkurborgar,“ segir í yfirlýsingunni.
Áréttar stjórn Sagnfræðifélags Íslands brýningu til fagfólks um að láta til sín heyra og til borgarstjórnar að fresta öllum ákvörðunum þar til faglegt mat liggur fyrir um áframhaldandi starfsemi Borgarskjalasafns.