„Það er mjög fjölbreytt starfsemi innan borgarinnar og störfin eru mjög fjölbreytt,“ segir Lóa Birna Birgisdóttir, sviðsstjóri mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is um styttingu vinnutíma og læknaheimsóknir.
Í Morgunblaðinu í dag var greint frá svari borgarráðs við fyrirspurn Sósíalistaflokksins, þar sem fram kom að Reykjavíkurborg skerti styttingu vinnuviku starfsfólks vegna læknaheimsókna á vinnutíma.
Í fyrirspurninni segir að veruleikinn sé sá að dregið hafi verið af launum eða styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki ef persónuleg erindi falla ekki á þann dag vikunnar sem styttur hefur verið.
„Starfsfólk hefur val um að færa styttinguna í þeirri viku til þess að meðal annars sinna sínu erindi eða merkja útstimplun, samkvæmt leiðbeiningum þar um, vegna erindisins með þeim hætti að engar skerðingar eigi sér stað, hvorki á styttingu vinnuvikunnar né launum,“ segir Lóa Birna.
Lóa Birna segir leiðbeiningarnar vera þannig að ef starfsfólk getur ekki hliðrað til og getur til dæmis ekki fengið tíma hjá lækni sem fellur að styttingu vinnuviku þess þá stimplar það sig út og merkir það sérstaklega í viðverukerfi.
„Þannig verður heimsóknin ekki dregin af styttingu vinnuviku eða launum á nokkurn hátt. Leiðbeiningarnar voru gefnar út í samráði við stéttarfélög og við vitum ekki af neinum málum þar sem starfsfólk er ósátt við þetta fyrirkomulag eða framkvæmd þess innan ákveðinna starfsstöðva.“
Þá segir Lóa Birna að í tilfellum þess starfsfólks sem er með fasta viðveru, til að mynda starfsfólk á leikskólum, sé þeim í lófa lagt að færa styttingu vinnuviku sinnar á þá daga sem þeir þurfa að erinda.
„Ef starfsfólkið getur ekki erindað á fyrirfram skilgreindum tímum styttingar vinnuviku það er að segja og að gefnu samráði við yfirmann.“