Í farbann vegna gruns um nauðgun

Maðurinn skal sæta farbanni til 28. febrúar.
Maðurinn skal sæta farbanni til 28. febrúar. Samsett mynd

Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um að karlmaður, sem grunaður er um nauðgun að kvöldi nýársdags, skuli sæta áframhaldandi farbanni til 28. mars.

Maðurinn, sem er erlendur ríkisborgari með takmörkuð tengsl við landið, átti bókaða flugferð út þann 9. janúar en keypti nýjan miða í skyndi viku fyrr, daginn eftir meinta brotið.

Í úrskurði Landsréttar segir að gögn málsins bendi til þess að hann hafi ætlað sér að yfirgefa landið í flýti til að koma sér undan rannsókn málsins.

Grunaður um að nauðga konu í bifreið

Meint brot hans er talið hafa verið framið að kvöldi 1. janúar í bifreið konu í Reykjavík. Er maðurinn grunaður um að hafa án samþykkis, með ofbeldi og ólögmætri nauðung, haft samræði og önnur kynferðismök við hana í bifreiðinni. 

Í úrskurði Landsréttar kemur fram að maðurinn hafi keypt flugmiða í skyndi þann 2. janúar og var hann á leiðinni á Keflavíkurflugvöll þegar hann gaf sig loks fram við lögreglu, sem hafði þá lýst eftir honum. Hann hefur ekki skýringar á því hvers vegna hann hugðist fara í skyndi af landi brott á sama tíma og hann átti miða út viku síðar, eða þann 9. janúar.

Ekki hefur verið gefin út ákæra í málinu en rannsókn þess er nánast lokið og verður tekin afstaða til saksóknar á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert