Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hóf rannsókn á stóra kókaínmálinu vegna dulkóðaðra skilaboða sem aðilar í saldreifaramálinu svokallaða sendu sín á milli. Í skilaboðunum kom fram að hópur manna ætlaði að flytja inn 60 til 100 kíló af kókaíni, og þar af leiðandi yrði málið langstærsta kókaínmál sem komið hefur upp hér á landi.
Skyrslutökum í stóra kókaínmálinu lauk í dag, en auk sakborninganna báru bæði íslenskir lögreglumenn og aðrið sérfræðingar vitni fyrir dómi.
Sakborningarnir fjórir; Páll Jónsson, Daði Björnsson, Jóhannes Páll Durr og Birgir Halldórsson, eru allir ákærðir fyrir skipulagða brotastarfsemi, tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots og hafa haft umtalsverðar óútskýrðar tekjur sem talið er að þeir hafi aflað sem ávinnings af refsiverðum brotum. Eru upphæðirnar frá 13 og upp í 17 milljónir á hvern einstakling, samtals 63 milljónir.
23. janúar báru íslenskir lögreglumenn vitni fyrir dómi. Lögreglumennirnir greindu frá því í vitnaleiðslunum að á rannsóknartímabilinu fylgdist lögregla með ákærðu auk þess sem lögregla beitti rannsóknarúrræðum með heimild dómstóla.
Rannsóknin hófst í kjölfar rannsóknar á saltdreifaramálinu, þar sem þrír menn voru fundnir sekir fyrir að hafa staðið að innflutningi á saltdreifara hingað til lands með Norrænu frá Hollandi. Í honum voru faldir 53 lítrar af amfetamínvökva. Í samvinnu við óþekktan íslenskan aðila fjarlægðu þeir amfetamínvökvann úr saltdreifaranum og framleiddu allt að 117,5 kg af amfetamíni í sölu og dreifingarskyni.
Í dulkóðuðum samskiptum aðila saltdreifaramálsins, sem lögregla fylgdist með, kom fram að von væri á stórri sendingu á kókaín til landsins. Kókaínið var falið í trjádrumbum frá Brasilíu en Páll var, að sögn lögreglumanns, eini aðilinn hér á landi sem flutti inn timbur frá því landi.
Í kjölfarið var fylgst með timbursendingu sem Páll flutti inn hingað til lands í febrúar 2022 í gegnum fyrirtækið, Hús og Harðviður. Ekkert ólöglegt fannst þó í þeirri sendingu.
Páll sagði í sínum vitnisburði að sú sending hafi verið fyrir tilstuðlan Birgis og að aldrei hafi komið til tals að flytja inn fíkniefni með þeirri sendingu. Þá sagði Páll að traust hafi myndast vegna þeirrar sendingar þar sem öll viðskipti hafi gengið eftir.
Þá kom fram í vitnisburði lögreglumannanna að viðskipti fyrirtækisins hafi verið nánst enginn fyrir utan kaupin á tilgreinda timbrinu frá Brasilíu.
Í máli eins lögreglumannsins kom fram að Páll vildi hætta við að flytja inn kókaínið með næstu sendingu er Páll sá að leitað hafði verið í gámnum sem kom til landsins í febrúar.
Í maí árið 2022 fékk lögregla síðan upplýsingar frá áreiðanlegum upplýsingagjafa um að annar gámur í gegnum fyrirtæki Páls væri á leiðinni til landsins, þar sem ólögleg efni væru meðferðis.
Fram kom í skýrslutökunum að grunur hafi borist að hinum sakborningunum í lok júní eða byrjun júlí, í kjölfarið fór rannsókn lögreglu á fullt.
Þess má geta að sendingin kom hingað til lands aðfaranótt 25. júlí og var afgreidd af tollsvæði þann 2. ágúst. Tveimur dögum síðar voru sakborningarnir handteknir.
Lögreglumennirnir greindu frá því að fylgst hafi verið með samskiptum og fundum Jóhannesar og Birgis, en þeir tjáðu dóminum í sínum skýrslutökum að þeir hafi einungis verið milliliðir í málinu og ekki tekið neinar sjálfstæðar ákvarðanir.
Páll vildi hins vegar meina að Birgir hafi staðið á bakvið sendinguna og Jóhannes verið milliliður á milli hans og Birgis.
Í máli lögreglumannanna kom fram að nánast undantekningalaust hafi Birgir og Jóhannes hist eftir að Jóhannes hafi hitt Pál. Þá hafi samskipti Birgis og Jóhannesar bent til að þeir vissu af áætlaðri þátttöku hvors annars í málinu, ólíkt því sem þeir greindu frá.
Daði þekkti hins vegar ekki hina sakborningana, en lögregla telur þó líklegt að þeir hafi mögulega vitað af hvor öðrum.
Þá var sérstaklega nefnt að Páll hafi flutt timbrið með kókaíninu á bensínstöð þar sem Daði tók við sendiferðabílnum og flutti hann í Hafnarfjörð. Lögregla fylgdist með aðgerðinni og sá ekki samskipti þeirra á milli en að þeir hafi að minnsta kosti séð hvorn annan.
Í skýrslutökunum kom fram að hlutverk Jóhannesar hafi verið áhættusamar en Birgis, þar sem hann var nær timbursendingunni en Birgir. Jóhannes hafi verið í samskiptum við Pál og séð til þess að hann hefði allt sem honum vantaði.
Birgir hafi hins vegar skaffað það sem Jóhannesi vantaði og verið í samskiptum við aðila erlendis um hvað þyrfti að gera.
Daði hafi aftur á móti verið milliliður sem tók engar sjálfstæðar ákvarðanir.
Einn lögreglumannanna sagði að þó menn geti gert lítið úr sínu hlutverki þá séu þeir að öllum líkindum meðvitaðir um umfang sendingarinnar. „Skipulag frá toppi til táar“ sagði hann um aðgerðina.
Þá sagði hann það vera mjög algengt í svona málum að menn vissu ekki hverjum þeir væru að vinna með til þess að forðast refsingu.
Þá kom fram í máli lögreglu að enn væri verið að rannsaka hvaða aðilar erlendis ættu þátt í málinum, þ.e.a.s. hverjir áttu efnin og hverjum átti að afhenda þau. Það væri markmið rannsóknarinnar en það væri erfitt og flókið verkefni að leysa það.
Óljóst er hvort sakborningarnir hafi staðið í öðru eins smygli áður en ýmis samskipti Jóhannesar bentu þó til að hann hafi staðið í sölu og dreifingu fíkniefni. Meðal annars væri til mynd af svokölluðum skuldalista.
Í vitnisburði lögreglumanns kom fram að mjög dýrt hafi verið að flytja inn gámana frá Brasilíu. Nefndi hann að 900 þúsund krónur kosti að leysa gám úr tollinum hér á landi.
Páll hélt því fram að hann hafi haldið að það ætti að flytja inn sex kíló af kókaíni. Það var því dregið í efa þar sem að það magn myndi samsvara kostnaði.
Greindi hann frá því að eitt gramm af kókaíni kostaði í dag á bilinu 15 til 17 þúsund krónur, eftir hver væri að selja og styrkleika efnisins. Því hefðu fengist tæplega 15 milljónir fyrir það magn en Páll greindi frá því í skýrslutöku að hann ætti að fá 30 milljónir fyrir verkið. Hann dró þá upphæð þó til baka.
Eins og áður sagði eru mennirnir einnig ákærðir fyrir að hafa haft umtalsverðar óútskýrðar tekjur sem talið er að þeir hafi aflað sem ávinnings af refsiverðum brotum. Eru upphæðirnar frá 13 og upp í 17 milljónir á hvern einstakling, samtals 63 milljónir.
Í vitnisburði Jóhannesar og Birgis báru þeir fyrir sig að um væri að ræða millifærslur og lán á milli vina og fjölskyldu og að þeir hafi borgað mest allt til baka. Lögregla sagði hins vegar að allar greiðslur sem gætu hafa verið greiðslur fyrir lán hefðu verið teknar til lækkunar á óútskýrðu tekjunum.
Hámarksrefsing fyrir fíkniefnainnflutning er tólf ára fangelsi, en ofan á það gætu bæst dómar fyrir peningaþvætti. Því er ljóst að ef mennirnir verða fundnir sekir gætu þeir átt yfir höfði sér langa fangelsisvist.
Á miðvikudag er gert ráð fyrir málflutningi saksóknara og verjanda í málinu og þá má búast við dómsuppkvaðningu um fjórum vikum síðar.