Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er búin að ræða við alla þá sem tengjast líkamsárás sem varð í bílakjallara við Glæsibæ á föstudaginn.
Þetta segir Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Málið er áfram í rannsókn hjá lögreglunni en ekki er talin þörf á gæsluvarðhaldi yfir mönnunum.
Lögreglan sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem hún hvatti karlmann á þrítugsaldri, grunaðan um aðild að árásinni, til að gefa sig fram við lögreglu. Ásmundur Rúnar segir að búið sé að ræða við manninn en getur ekki staðfest að hann hafi gefið sig fram.
Fjórir voru á vettvangi þegar átök brutust út, en fram hefur komið að hníf hafi verið beitt. Sá sem fyrir árásinni varð þurfti aðhlynningu á sjúkrahúsi. Meiðsli hans voru ekki alvarleg og var hann útskrifaður skömmu síðar. Lögreglan leitaði tveggja manna í tengslum við árásina og eru þeir báðir komnir í leitirnar.