Niðurstaðan skýr um réttarstöðu SA

Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur ASÍ:
Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur ASÍ: mbl.is/Kristinn Magnússon

Niðurstaða Félagsdóms í máli Alþýðusambands Íslands gegn SA um lögmæti verkbanns SA er mjög skýr um rétt SA til að beita þessu vopni í vinnudeilum. Þetta segir Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur hjá ASÍ, eftir að dómur var kveðinn upp í málinu nú á fjórða tímanum í dag.

„Niðurstaðan er afskaplega skýr og hún er skýr á þann veg að réttarstaða Samtaka atvinnulífsins, heildarsamtakanna, er viðurkennd sem félags í skilningi vinnulöggjafarinnar sem þá staðfestir að Samtök atvinnulífsins hafa heimild til að kalla eftir atkvæðagreiðslu og framkvæma hana með þeim hætti sem þau gerðu. Það er mjög hrein niðurstaða í því efni,“ sagði Magnús við blaðamann mbl.is.

Öðruvísi skipulag hjá ASÍ

Hann segir að í málinu hafi einnig verið tekið á ágreiningi um atkvæðaskrá SA, þ.e. hvort félagið gæti látið alla félagsmenn sína greiða atkvæði um verkbannið frekar en bara þá sem verkbannið náði til.

„Við hefðum kosið að væru félög sem starfa á sviði veitinga- og þjónustu og eru að eiga í kjaradeilu, að þau væru þau sem hefðu þennan rétt en ekki heildarsamtök atvinnurekenda,“ segir Magnús um þetta atriði, en Félagsdómur taldi aðferðir SA heimilar.

Segir Magnús að Alþýðusambandið hafi öðruvísi skipulag há sér. „Við erum með félög sem standa mjög sjálfstætt og mega ekki framselja þessar heimildir sínar til annarra félaga. En þarna geta einstaka atvinnurekendur framselt þessar heimildir í hendur Samtaka atvinnulífsins, en þetta eru heimildir sem við höfum ekki,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert