Endurbætur á skólakerfinu, lagasetning og ný Menntamálstofnun er á meðal þess sem var fjallað um á þjóðfundi um framtíð skólaþjónustu sem fer fram í dag í Hörpu. Þá kynnti menntamálaráðherra stofnun nýs landsteymis um farsæld barna í skólum og forstjóri Menntamálastofnunar svokallaða „Stofnun X“.
Í opnunarávarpi sínu lagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra áherslu á velferð barna og langtímaumbætur með nýjum lögum ásamt því að nauðsynlegt sé að nýja lausnir verði nýttar sem fyrst. Í því samhengi kynnti ráðherra nýtt tímabundið landsteymi um farsæld barna í skólum.
Teymið muni verða kynnt og taka til starfa um miðjan marsmánuð.
Hann sagði meginmarkmið teymisins, vera að veita þverfaglega ráðgjöf og stuðning þegar komi að þyngstu málum skólakerfisins sem þoli litla bið. Þá muni teymið veita ráðgjöf á vettvangi í leik-, grunn-, og framhaldsskólum sem og almenna ráðgjöf.
„Hjá Landsteyminu munu börn, foreldrar og kennarar og starfsfólk skóla á öllum skólastigum á einum stað geta fengið stuðning frá ólíkum sérfræðingum úr helstu þjónustukerfum sem þekkja umhverfið vel við ætlun þannig strax að tryggja markvissa samvinnu við fjölbreytta aðila til að finna úrræði og lausnir þvert á kerfi. Verkefnið byggir á grunni farsældar laganna og þeirri sýn að kerfið eigi að sameinast um að barn fái þann stuðning sem þarf hverju sinni. Hvatt skal til og veittur stuðningur til þess að mál barns sé unnið á grundvelli þeirra laga,“ sagði Ásmundur.
Landsteymið sé í raun hugsað til þess að brúa bilið og aðstoða skólakerfið á meðan að lagabreytingar séu ræddar og mótaðar. Stefnt sé á að lagabreytingar vegna skólaþjónustu séu lagðar fram á vor- og haustþingi 2023.
Þá ræddi ráðherra einnig mikilvægi þess að breitt samstarf sé nýtt hvað varðar umræðu um nýja löggjöf.
Hvað varðar nýja Menntamálastofnun sagði ráðherra að mikilvægt væri að einhver miðlægur aðili yrði til staðar til þess að hafa yfirsýn yfir framkvæmd nýrrar löggjafar og breyttrar skólaþjónustu. Ný stofnun sem byggi á grunni Menntamálastofnunar muni hafa þetta hlutverk ásamt því að miðla þekkingu og reynslu og vera í sambandi við starfsfólk menntakerfisins.
Forstjóri Menntamálastofnunnar, Þórdís Jóna Sigurðardóttir, ávarpaði einnig þjóðfundinn og óskaði til dæmis eftir hugmyndum að nafni á nýju stofnunina sem nú sé kölluð „Stofnun X“. Hún sagði jafnframt að aldrei áður hafi verið til sambærileg stofnun hérlendis, eins og sú sem sé nú í mótun.
Þórdís segir að ný Menntamálastofnun muni stuðla að því að hjálpa skólum sem hafi misjafnar forsendur og úrræði til þess að takast á við aðstæður, verkefni og erfiðar áskoranir.
„Stuðningur við starfsfólk skóla, nemendur og foreldra vegna náms, hegðunar, líðan og félagsfærni nemenda þarf að vera markvissari frá skólaþjónustunni,“ nefnir Þórdís. Nýrri stofnun sé ætlað að veita skólum betri þjónustu, börnum gæðamenntun og stuðla að aukinni farsæld barnanna.
Markmiðum nýju stofnunarinnar sé skipt í fjóra liði í nýju frumvarpi.
„Í fyrsta lagi, að styðja við þroska líðan og farsæld barna í skólum. Við skiljum ekkert barn eftir. Númer tvö, að styðja við rétt barna og ungmenna til gæða, menntunar og skólaþjónustu við hæfi án hindrana og í markmiði þrjú, að samræma og samhæfa skólastarf og skólaþjónustu og stuðla að jöfnuði og eingildingu barna og ungmenna þvert á hópa, skólastig og landsvæði. [...] Númer fjögur að vera faglegt forystuafl og bakhjarl skóla og styðja við notkun viðurkenndra aðferða í skólastarfi og skólaþjónustu og við ætlum að horfa heildstætt á þessa ábyrgð og sjá betur til þess að skólar geti staðið undir henni með auknu samráði og stuðningi,“ segir Þórdís.
Hún segir stofnunina vilja leysa úr læðingi krafta og gera sitt besta til þess að nemendur muni fá að blómstra.
„Ég bind miklar vonir við að umræðan hér í dag muni verða til að skýrar línur og skerpa okkar sameiginlegu áherslur. Verum ekki hrædd við að vera vera ekki sammála, að misskilja hvort annað og skila frá okkur, bæði kostum og göllum eftir því hvernig umræðan fer fram,“ sagði Þórdís.
Þjóðfundinn má sjá í beinu streymi með því að smella hér.