Óljóst hvort kuldatíðin heldur áfram

Hitaspáin á landinu kl. 12 næsta föstudag. Það verður ansi …
Hitaspáin á landinu kl. 12 næsta föstudag. Það verður ansi kalt. Kort/Veðurstofa Íslands

Langtímaspár gera ráð fyrir því að kuldatíðin sem núna er hafin á landinu standi yfir að minnsta kosti fram yfir næstu helgi.

Eftir það verða veðurspárnar óljósari, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.

Ef horft er á svokallaðar safnspár gera þær margar hverjar ráð fyrir því að kuldatíðin haldi áfram fram í næstu viku. Aðrar segja aftur á móti að það dragi eitthvað úr kuldanum.

Maður á hlaupum í köldu veðri.
Maður á hlaupum í köldu veðri. mbl.is/Styrmir

Loft úr íshafi

„Það eru háþrýstisvæði í grennd við landið sem stjórna þessu. Núna er hæðin yfir Grænlandi og beinir til okkar lofti lengst norðan úr íshafi. Loftið er að koma af hafíssvæðunum meðfram Austur-Grænlandi og er þar af leiðandi í norðanáttinni frekar þurrt og það er ekki mikil snjókoma, heldur él og él á stangli,“ greinir Einar frá.

Spurður nánar út í snjókomu segir hann það geta snjóað eitthvað um tíma þegar kólnar enn frekar á miðvikudaginn. Þetta er þó ekki sú gerð norðan- og norðaustanáttar sem fylgja samfelldar og miklar hríðar norðan- og austanlands. Almennt séð segir hann lítinn snjó vera í fjöllum á Suður- og Vesturlandi.

Einar segir að þrátt fyrir kuldann sé spáð ágætis veðri og ekki sé útlit fyrir miklar samgöngutruflanir.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Kaflaskiptur vetur

Veturinn segir hann hafa verið kaflaskiptan með vel afmörkuðum tímabilum og heldur einsleitu veðri. Kuldatíð hafi verið í desember, síðan hafi lægðagangur og örðugleikar tengdir honum verið í lok janúar og byrjun febrúar og síðan hafi hlýnað í lok febrúar. 

Einar segir mars alla jafna vera vetrarmánuð og dæmi séu um þrálátar norðanáttir í mánuðinum þótt sól sé hátt á lofti. Stundum verði þó breytingar upp úr jafndægrum vegna þess hve sólin er orðin hátt á lofti. Til að ná auknum hita þurfi þó hagfelldar sunnan- eða suðvestanáttir að fylgja með. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert