Öllum reglum fylgt eftir við meðhöndlun kókaínsins

Skýrslutökum lauk í dag.
Skýrslutökum lauk í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hollenska lögreglan segir að öllum reglum og verkferlum hafi verið fylgt eftir er hún meðhöndlaði tæplega 100 kíló sendingu af kókaíni sem átti að smygla til Íslands síðasta sumar. 

Fjórir Hollendingar báru vitni í stóra kókaínmálinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Erfiðlega hafði tekist að skipuleggja vitnaleiðslurnar yfir Hollendingunum, en tæplega sjö vikur eru síðan aðalmeðferð í málinu hófst. Fjölmiðlar biðu vitnaleiðslnanna í dag átekta í ljósi banns dómara í málinu um að greina frá því sem kom fram í skýrslutökunum fyrr en þeim var öllum lokið. 

Hollendingarnir báru vitni í gegnum fjarfundabúnað og greindu frá ferlinu frá því að fíkniefnin voru haldlögð þar til þeim var eytt. 

Sakborningarnir fjórir í málinu; Páll Jóns­son, Daði Björns­son, Jó­hann­es Páll Durr og Birg­ir Hall­dórs­son, hafa gagnrýnt hvernig staðið var að vigtun og sýnatöku efnanna. 

Hollenska lögreglan haldlagði 99,25 kíló­ af kókaín og var einungis 10% af efninu tekið til skoðunar.

Sakborningarnir bera því fyrir sér að um ófullnægjandi rannsókn hafi verið að ræða og gerðu athugasemd við að eng­inn full­trúi lög­regl­unn­ar á Íslandi eða verj­andi ákærðu hafi verið viðstadd­ur rann­sókn á efn­un­um. 

Kókaínið sem hollenska lögreglan gerði upptæk í timbursendingunni - samtals …
Kókaínið sem hollenska lögreglan gerði upptæk í timbursendingunni - samtals 99,25 kg. Ljósmynd/Hollenska lögreglan

Ekki gerlegt að taka sýni úr öllum pökkum

Hollendingarnir lýstu því fyrir dómi að ef umfang fíkniefnanna mældist undir 300 kílóum væri það regla í Hollandi, við meðhöndlun slíkra sendinga, að sýni væru tekin úr 10%. Hollenskur saksóknari sem fór fyrir rannsókninni sagði að sú regla væri eftir evrópskum stöðlum og hefði verið í gildi eins lengi og hún hefði gegnt því embætti. 

Því voru tekin sýni úr tíu pökkum og tveir pakkar umfram það valdir til þess að spreyja yfir sérstöku spreyi sem litar efnin ef þau reynast vera fíkniefni, sem þau vissulega voru. Allar pakkningarnar voru valdar af handahófi. 

Frá dómsal í dag.
Frá dómsal í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Annar aðili sem sá um að uppfylla réttarbeiðni frá Íslandi sagði að ekki væri gerlegt að taka sýni úr öllum pökkum þeirra sendinga sem hollenska lögreglan haldleggur þar sem umfangið sé svo mikið. Allir fjórir Hollendingarnir sögðu að öllum reglum og verkferlum varðandi þessa sendingu hafi verið fylgt eftir og að ferlið hafi verið það sama og við meðhöndlun allra annarra fíkniefnasendinga. 

Í hol­lensku hafn­ar­borg­un­um Rotter­dam og Vl­issingen lagði lög­regl­an hald á 52,5 tonn af efn­inu á síðasta ári. Hol­land er í þriðja sæti á eft­ir Belg­íu og Spáni yfir þau Evr­ópu­lönd sem glæpa­hóp­ar mest til að koma fíkni­efn­um inn í álf­una.

Efnin brennd eins fljótt og hægt er

Hollenski saksóknarinn sagði að fíkniefnin væru brennd eins fljótt og hægt væri til þess að koma í veg fyrir að þeim verði stolið og þau komist aftur í umferð. Sýnin væru geymd ef þess væri óskað, en aldrei sendingin í heild sinni. 

Páll Jónsson hefur setið í einangrun frá því að hann var handtekinn 4. ágúst og sagði í skýrslutöku fyrir dómi að einangrunin hafi tekið gríðarlega á hann. 

Hon­um hafi verið greint frá því að ein­angr­un­in væri á grund­velli al­manna­hags­muna sem Páll sagðist ekki skilja þar sem búið væri að eyða fíkni­efn­un­um og eng­in ógn stafaði af hon­um. 

Páll Jóns­son og Daði Björns­son.
Páll Jóns­son og Daði Björns­son. mbl.is/Kristinn Magnússon

Há­marks­refs­ing fyr­ir fíkni­efnainn­flutn­ing er tólf ára fang­elsi, en ofan á það gætu bæst dóm­ar fyr­ir pen­ingaþvætti. Því er ljóst að ef menn­irn­ir verða fundn­ir sek­ir gætu þeir átt yfir höfði sér langa fang­els­is­vist.

Á miðviku­dag er gert ráð fyr­ir mál­flutn­ingi sak­sókn­ara og verj­anda í mál­inu og þá má bú­ast við dóms­upp­kvaðningu um fjór­um vik­um síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert