Höfuðborgarsvæðið siglir inn í mikla svifrykstíð um þessar mundir, en erfiðustu mánuðirnir hvað þetta varðar eftir veturinn eru mars og apríl.
Hversu slæm svifryksmengunin verður er mjög háð veðri að sögn starfsmanns Heilbrigðiseftirlitsins. Takmarka megi svifryk með því að minnka notkun nagladekkja en þó sé aldrei hægt að sleppa alveg frá svifrykinu.
Myndskeið frá Reykjanesbraut í Kópavogi vakti athygli í dag, en þar sést ryk þyrlast upp í umferðinni um brautina.
Svava S. Steinarsdóttir, verkefnastjóri hjá einingu vöktunar hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, segir Vegagerðina og Reykjavíkurborg hafa sópað helstu stofnbrautir borgarinnar nú fyrir helgi eða aðfaranótt fimmtudags. Aðfaranótt föstudags voru göturnar svo rykbundnar til þess að reyna að koma í veg fyrir svifryksmengun.
„Þá er efni sem heitir magnesíumklóríð úðað yfir götuna og það bindur rykið þannig að það eru minnir líkur á að það þyrlist upp. Þetta er svona þessi skammtímaaðgerð sem að við erum helst að grípa til til þess að bregðast við svona ástandi,“ segir Svava.
„Við erum að fylgjast mjög vel núna með því hvernig þetta er að þróast. Það er mjög háð veðurfari hvort að rykið nái að koma sér á flug eða ekki. Fram undan næstu daga þá er umtalsverður vindur í kortunum en þurrt og þá getum við kannski ekki beitt rykbindingunni ef það er of mikið rok.“
Ástandið sé þó nokkuð gott sem stendur þó að umferðartengda toppa megi sjá á mælum.
Hvað varðar lausnir til þess að koma í veg fyrir svifryksmengun segir Svava að best sé að reyna að koma í veg fyrir nýmyndun en svifryk verði alltaf til staðar. Helsti áhrifavaldur í nýmyndun sé umferð og þá sérstaklega nagladekk.
„Af því að nagladekk slíta götunni 20 til 40 sinnum meira þá er nýmyndunin meiri af hálfu nagladekkjanna. Það er þá kannski þess vegna sem að sópun hljómi sem svo auðveld lausn en hún er það ekki, við náum aldrei öllu. Í sópun þá verðum við líka að geta þvegið til þess að geta náð einhverjum teljanlegum árangri og það getum við ekki nema það sé frostlaust,“ segir Svava.
Þá nefnir hún að það verði nýmyndun á hverjum degi. Ekki sé hægt að losna við svifryk, bara takmarka nýmyndun.
Aðspurð hver áhrif svifryksins séu á fólk segir hún það geta haft ýmis áhrif ofan á það að vera ertandi. Þá sérstaklega í miklu magni.
„Það getur komist hreinlega inn í blóðrásina hjá okkur. Smæstu agnirnar fara alveg niður í lungun, það þykkir blóðið, eykur líkur á hjartaáföllum og heilablóðföllum fyrir utan það að geta til langs tíma haft áhrif á lungnaþroska barna og lungun okkar,“ segir Svava.
Hún ráðleggur fólki að stunda ekki útivist nálægt stóru umferðargötunum ef það er mikil svifryksmengun. Þá hafi sérfræðingur Umhverfisstofnunar sagt að þegar einstaklingur er kominn um tvö hundruð metra frá stórum stofnbrautum sé hann kominn í meira öryggi.
Með hverjum tuttugu metrum sem einstaklingur kemst frá stofnbraut því meira falla gildin.
„Rannsóknir hafa sýnt að ef að þú ert búsettur í innan við fimmtíu metra fjarlægð frá stórum vegi þá sé lungnarýmd barna, sem vaxa upp við slíkar aðstæður, minni,“ segir Svava að lokum.