Þannig að megrun virkar ekki

Þessa dagana er mikið rætt og skrifað um lyfin Saxenda og Ozempic sem upphaflega eru ætluð sykursjúkum, en vegna þyngdartaps sem þeim fylgir hafa margir freistast til að líta á þau sem lausn við aukakílóunum. Í myndver Árvakurs mætti læknirinn Erla Gerður Geirsdóttir til að útskýra málið. 

Fólk verður fyrr satt

„Í grunninn eru þetta sykursýkislyf. Í meltingarvegi eru framleidd ákveðin hormón sem senda til heilans skilaboð um seddu. Stundum eru þessi hormón ekki nægilega mikil þannig að margir einstaklingar upplifa ekki seddu. Það er merkilegt að ég er að fá fólk til mín sem hefur tekið þessi lyf og segir hissa: „Er það þetta sem allir eru að tala um! Ég hef aldrei áður prófað að vera södd“. Þannig að lyfin gera það að verkum að fólk verður fyrr satt og langar síður í eitthvað að borða. Annað sem lyfið gerir er að jafna blóðsykursveiflur og þá fer minna inn í fituvefinn. Þriðja verkunin er sú að það hægir á meltingunni; matur er lengur í maganum og því er maður saddur lengur,“ segir hún og segir aukaverkanir geti verið ógleði, uppköst og hægðatregða sem vel sé hægt að eiga við. 

Mótvægisaðgerðir þyngdarstýrikerfa

„Þá komum við að stærsta punktinum í þessu. Það væri eðlilegt að fólk myndi spyrja sig að því hvort það myndi ekki léttast bara alveg eins með því að borða minna, án lyfsins. Það er ekki þannig, vegna þess að ef að þú borðar minna, minna en líkaminn þarf og vill, þá breytir hann kerfinu sínu og fer í mótvægisaðgerðir. Þannig að megrun virkar ekki; það er alveg á hreinu. En þegar þú ert á lyfinu gefur það upplýsingar um seddu og leyfir líkamanum að ganga á forðann sinn og sleppir því að fara í þessar mótvægisaðgerðir þyngdarstýrikerfanna,“ segir Erla og segir fólk léttast upp að ákveðnu marki og viðhaldi síðan þyngdinni. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka