Fimmtíu manns var samtals sagt upp í tveimur hópuppsögnum hér á landi í febrúar.
Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar. Þar segir að 33 hafi verið sagt upp í þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni. Sautján til viðbótar hafi misst störf sín við vísindarannsóknir og þróunarstarf.
Uppsagnirnar eru sagðar munu koma til framkvæmda á tímabilinu apríl til júní.
Greint var frá því í Morgunblaðinu í byrjun febrúar að starfsemi hugbúnaðarfyrirtækisins Cyren hefði verið lögð niður á Íslandi.
„Þetta kom á óvart, fólk fékk borguð sín laun án vandræða tveimur dögum áður. Það var búið að skipuleggja verkefni marga mánuði fram í tímann. Svo bara skellur þetta á eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ sagði Friðrik Skúlason í samtali við Morgunblaðið, en hann hefur lengi starfað hjá fyrirtækinu og seldi því upphaflega veiruleitarforritið F-Prot fyrir tíu árum.
Að hans mati var það röð rangra ákvarðana sem stjórnendur móðurfyrirtækisins tóku, sem olli því að fyrirtækinu var lokað.
„Hrun fyrirtækja á sér oft langan aðdraganda. Maður sér það þegar fyrirtæki fer í uppsagnir, á í vandræðum með að borga laun og þannig. Það er ekki það sem gerist núna. Starfsfólkið veit ekki betur en allt sé í fínasta lagi. Allir fengu launin sín borguð án vandræða. Svo bara púff. Allir fá tölvupóst um uppsögn. Þetta er brútal. Það er orðið yfir þetta,“ sagði Friðrik.