Tvær hópuppsagnir: „Þetta er brútal“

Vinnumálastofnun.
Vinnumálastofnun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimmtíu manns var samtals sagt upp í tveimur hópuppsögnum hér á landi í febrúar.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar. Þar segir að 33 hafi verið sagt upp í þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni. Sautján til viðbótar hafi misst störf sín við vísindarannsóknir og þróunarstarf.

Uppsagnirnar eru sagðar munu koma til framkvæmda á tímabilinu apríl til júní.

„Eins og þruma úr heiðskíru lofti“

Greint var frá því í Morgunblaðinu í byrjun febrúar að starfsemi hugbúnaðarfyrirtækisins Cyren hefði verið lögð niður á Íslandi.

„Þetta kom á óvart, fólk fékk borguð sín laun án vandræða tveimur dögum áður. Það var búið að skipuleggja verkefni marga mánuði fram í tímann. Svo bara skellur þetta á eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ sagði Friðrik Skúlason í samtali við Morgunblaðið, en hann hefur lengi starfað hjá fyrirtækinu og seldi því upphaflega veiruleitarforritið F-Prot fyrir tíu árum.

Að hans mati var það röð rangra ákvarðana sem stjórnendur móðurfyrirtækisins tóku, sem olli því að fyrirtækinu var lokað.

„Hrun fyrirtækja á sér oft langan aðdraganda. Maður sér það þegar fyrirtæki fer í uppsagnir, á í vandræðum með að borga laun og þannig. Það er ekki það sem gerist núna. Starfsfólkið veit ekki betur en allt sé í fínasta lagi. Allir fengu launin sín borguð án vandræða. Svo bara púff. Allir fá tölvupóst um uppsögn. Þetta er brútal. Það er orðið yfir þetta,“ sagði Friðrik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert